Í síðasta pistli fjallaði ég lauslega um efnisinnihald og aðdraganda að gerð reglugerðar um aganefnd KKÍ. Við setningu þeirrar reglugerðar árið 1993 var gert ráð fyrir því að leikmaður færi sjálfkrafa í bann í einn leik ef honum yrði vísað af leikvelli. Var þar höfðað til mikilvægis skilvirkni mótahaldsins, og að leikmanni væri þegar í stað ljós refsing við brottvísun. Rétt er að geta þess að á þeim tíma dæmdu dómarar eftir þeim reglum að tvær “tæknivillur” þýddu sjálfkrafa brottvísun leikmanns af velli, en “tæknivillur” á þeim tíma gátu verið dæmdar fyrir það eitt að t.d. hanga í körfuhringnum (eftir troðslu), að blaka bolta frá eftir skoraða körfu, fyrir ósæmileg ummæli o.s.frv. (ég vona að einhverjir mér fróðari um dómgæslu leiðrétti mig ef rangt er með farið). Skömmu eftir setningu reglugerðarinnar kom upp umdeilt tilvik þar sem leikmanni var sjálfkrafa vísað af velli vegna slíkra "tæknilegra" atvika (mig minnir að það hafi verið Frank Booker), og þótti ósanngjarnt að hann færi sjálfkrafa í leikbann vegna “brota” af þessu tagi. Um væri að ræða fremur leikbrot en agabrot, og afleiðingar í næsta leik væru óþarflega harkalegar undir slíkum kringumstæðum. Á ársþingi KKÍ á Flúðum árið 1995 kom því fram tillaga um að bæta inn orðalaginu “að jafnaði” inn í það ákvæði reglugerðarinnar er kvað á um fortakslaust eins leiks bann. Barðist undirritaður gegn þessari breytingu – ekki síst með hliðsjón af því að á þetta myndi í fæstum tilvikum reyna nema til þess að fá niðurstöðu málsins frestað. Sú hefur nú orðið raunin, þótt ekki hafi það komið upp fyrr en 9 árum síðar. Sjónarmið undirritaðs voru – og eru ennþá – þess eðlis að í þessum tilvikum sé skilvirkni mótahaldsins mikilvægari en mögulegt endurmat á þeim aðstæðum sem ollu því að viðkomandi leikmanni var vísað af leikvelli. Þá má segja að þörfin fyrir umrædda breytingu hafi orðið ennþá minni með því að reglum þeim sem dómarar starfa nú eftir varðandi “tæknibrot” hefur verið breytt á þann veg að brottrekstur leikmanns af velli er ekki lengur hlutlægur og sjálfvirkur, heldur er byggður á huglægu mati dómara hverju sinni - á grundvelli alvarlegra eða ítrekaðra brota - þannig að segja má að leikmaður verðskuldi fremur leikbann en í þeim tilvikum sem “að jafnaði” reglunni var ætlað að bæta úr á sínum tíma. Það er raunar sterk skoðun undirritaðs að ekki sé skynsamlegt að láta nefnd eða úrskurðaraðila endurmeta þær ákvarðanir sem dómarar leiks hafa þegar tekið. Heildarmyndin í slíkum málum er of viðamikil, s.s. samræmi við dómgæslu allan leikinn, aðvaranir eða samskipti sem kunna að hafa verið aðdragandi ákvörðunar dómara, spennustig í leiknum og í salnum almennt o.s.frv. Slíkt verður að mínu mati illa metið eftir á af myndbandsupptöku, a.m.k. svo skynsamlegt sé. Eina undantekningin sem undirritaður getur fallist á undir þessum kringumstæðum er ef dómari leiksins sjálfur lýsir yfir að eigin frumkvæði að hann hafi tekið ranga ákvörðun sem veldur leikmanni leikbanni. Slíkt myndi þá liggja fyrir með nægum fyrirvara til þess að ekki þurfi að fórna skilvirkni mótahalds til að fá eins sanngjarna og rétta niðurstöðu og kostur er í slíkum tilvikum. Þetta er málamiðlun sem felur í sér sanngirni án þess að fórna öðrum hagsmunum. Hvað sem öðrum hremmingum í agamálum kann að líða þennan veturinn þá vildi ég með vísan til framangreinds síst af öllu vilja persónulega vera sakaður um að hamla skilvirkni mótahaldsins eftir þá baráttu sem fram fór á ársþinginu á Flúðum 1995. Sú ákvörðun var hinsvegar lýðræðislega og heiðarlega tekin á þinginu, og hef ég engar athugasemdir við það ferli sem slíkt. En þeir sem nú vilja fá fram fyrra fyrirkomulag verða að gera tillögu um slíkt – hún mun a.m.k. eðlilega ekki koma frá undirrituðum. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ.