Ár 2004, föstudaginn 6. febrúar, kl. 14.00, er háð þing í Dómstól KKÍ af Jóhannesi Karli Sveinssyni. Fyrir er tekið: Mál nr. 2/2004. Körfuknattleiksdeild Þórs Þorlákshafnar gegn Körfuknattleiksdeild Breiðabliks Í málinu er kveðinn upp svofelldur DÓMUR I. Kærandi er Körfuknattleiksdeild Þórs Þorlákshafnar. Kærði er Körfuknattleiksdeild Breiðabliks Kæran barst skrifstofu KKÍ í tölvupósti hinn 21. janúar s.l. Með kærunni bárust engin frekari gögn. Formaður dómstóls KKÍ úthlutaði málinu til undirritaðs dómara hinn 22. janúar s.l. Með bréfi til Breiðabliks hinn 28. s.l. var félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kæruefnið. Greinargerð Breiðabliks barst skrifstofu KKÍ hinn 1. þ.m. Málið var þingfest í dag kl. 12.15. og munnlegur málflutningur fór fram í beinu framhaldi þar sem forsvarsmenn aðila reifuðu sjónarmið sín í málinu. Kröfur kæranda: Kærandi krefst þess aðallega að úrslitum leiks Breiðabliks og Þórs Þorlákshafnar, sem fram fór hinn 18. janúar s.l. verði breytt þannig að Breiðablik teljist hafa tapað leiknum. Til vara er þess krafist að liðunum verði gert að leika að nýju. Kröfur kærða: Kærði krefst þess að vísar kæruefninu á bug og að kærunni verði vísað frá. II Kærandi byggir kröfur sínar á því að Kyle Williams leikmaður Breiðabliks hafi leikið með liðinu í úrvalsdeildarleik gegn Þór Þorlákshöfn hinn 18. janúar s.l. án þess að vera með atvinnu- eða dvalarleyfi á Íslandi. Þetta stríði gegn íslenskum lögum og er því til stuðnings vísað til 6. gr. laga nr. 97/2002 og 9. og 10. gr. laga nr. 96/2002. Jafnframt hefur kærandi stutt kröfur sínar við ákvæðin í a lið 4. töluliðar 35. gr. laga ÍSÍ. Kæran verður skilin svo að með ætluð brotum leikmannsins á reglum um atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi hafi í för með sér að hann hafi ekki verið hlutgengur til leiks í skilningi reglugerðar KKÍ um erlenda leikmenn. Breiðablik hefur í greinargerð sinni lýst atvikum þannig að umræddur leikmaður hafi verið til reynslu hjá kkd. Breiðabliks og ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort honum yrði boðinn samningur um starf hjá deildinni. Er og tekið fram að leikmaðurinn hafi engar greiðslur þegið í tengslum við þennan reynslutíma. Í málflutningi var þetta ítrekað og það sjónarmið félagsins að þegar sótt var um keppnisleyfi og þegar umræddur leikur fór fram hafi ekki verið afráðið hvort leikmaðurinn yrði ráðinn til starfa, það myndi ráðast af frammistöðu leikmannsins. Ætlun félagsins hafi verið að sækja um formleg leyfi ef gerður yrði ráðningarsamningur við leikmanninn. Í rökstuðningi fyrir kröfum kkd. Breiðabliks var og bent á að umfjöllunarefni kærunnar eigi ekki undir dómstóla heldur eigi málefni um dvalar- og atvinnuleyfi undir stjórnvöld í landinu; ekki sé gert að skilyrði í reglum KKÍ að leikmenn þurfi sérstök atvinnuleyfi til að leika körfuknattleik og að öll skilyrði skv. reglunum um leikmannasamning, leikheimild (Letter of clearence) og tryggingar hafi verið uppfyllt. III. Dómari óskaði eftir upplýsingum frá skrifstofu KKÍ um leikheimild Kyle Williams. Í svari framkvæmdastjóra KKÍ segir: ..Blikar höfðu lagt inn yfirlýsingu frá leikmanni um að hann hafi ekki leikið með félagi utan USA, ljósrit af vegabréfi leikmannsins, "registration form for A licence for foreign players" frá FIBA og yfirlýsingu frá tryggingafélagi um að leikmaðurinn sé tryggður hér á landi.” Skrifstofa KKÍ gaf í framhaldi af þessu út keppnisleyfi hinn 16. janúar s.l., tveimur dögum fyrir umræddan leik í samræmi við 3. gr. reglugerðar um erlenda leikmenn. Samkvæmt 1. gr. laga um dómstóla Körfuknattleikssambands Íslands hafa þeir fullnaðarlögsögu um málefni sem koma upp innan vébanda sambandsins og varða ágreining um lög og reglur þess. Lögsaga dómstólsins er nánar afmörkuð í 15. gr. eð þeim orðum að undir hann heyri öll brot á lögum og reglum KKÍ. Samkvæmt 16. gr. sömu reglna er dómstólnum heimilt að beita lögum og reglugerðum KKÍ auk dóms- og refsiákvæðum ÍSÍ við úrlausn mála. Ekki verður annað séð en að keppnisleyfi fyrir Kyle Williams hafi verið gefið út í samræmi við viðeigendi reglur og að öll tilskilin gögn hafi þar legið fyrir. Leikmaðurinn hafði því gilt keppnisleyfi í samræmi við reglur Körfuknattleikssambands Íslands þegar leikur málsaðila fór fram. Ekkert liggur fyrir um stöðu atvinnu- eða dvalarleyfis fyrir Kyle Williams á Íslandi. Í greinargerð og málflutningi Breiðabliks er ekki mótmælt þeirri staðhæfingu kæranda að leikmaðurinn hafi ekki slík leyfi í samræmi við lög nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga og lög nr. 96/2002 um útlendinga. Hvað sem því líður er ljóst dómstóll KKÍ hefur engar heimildir til að fjalla um réttarstöðu manna samkvæmt þessum lögum, um það er fjallað á öðrum vettvangi. Dómstólnum er ekki heimilt að setja viðbótarskilyrði fyrir veitingu keppnisleyfis með hliðsjón af almennum lögum í landinu heldur ber honum að leysa úr málum á grundvelli reglna KKÍ og ÍSÍ og þeirra skilyrða sem þar eru sett. Hugsanleg brot leikmanna á almennum landslögum geta almennt séð heldur ekki haft áhrif á úrslit leikja á vegum KKÍ nema þau brot tengist beint reglum sambandsins. Kærandi hefur ekki bent á nein brot kærða gegn lögum og reglum KKÍ í tengslum við þetta mál. Tilvísuð ákvæði í 35. gr. laga ÍSÍ um hugsanlegan álitshnekki eiga ekki við þá aðstöðu sem hér er uppi að mati dómsins. Það er því niðurstaða dómstólsins að engin stoð sé fyrir kröfum kæranda í málinu og ákvörðun um að veita keppnisleyfi hafi verið lögmæt. Aðal- og varakröfum hans er því hafnað og úrlit leiks málsaðila hinn 18. janúar s.l. standa óhögguð. Jóhannes Karl Sveinsson, tilnefndur dómari í máli þessu, kveður upp úrskurðinn. Afrýjunarfrestur er 5 dagar frá uppkvaðningu dómsins, en skrifstofu KKÍ er falið að birta dóminn í dag með sannanlegum hætti. DÓMSORÐ Kröfum kæranda er hafnað og kærði er sýknaður. Jóhannes Karl Sveinsson