Tímabilið í ár verður mjög jafnt og skemmtilegt þar sem ég held að það komi engin tvö til þrjú lið til með að stinga af, aftur á móti held ég að deildin eigi eftir að skiptast í tvennt og í hvorum hluta fyrir sig eigi liðin eftir að vinna hvort annað. Það er vonandi fyrir körfuboltann að leikmennirnir sem æfðu með landsliðunum í sumar eigi eftir að sýna jafn skemmtileg tilþrif og þeir gerðu í Norðurlandamótinu, og þá að draga sína samherja með sér í áttina að góðum árangri. Við KR-ingar ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að verja meistaratitilinn og sækja hart að öðrum titlum sem í boði eru. Til þess höfum við æft vel í sumar og spilað 22 æfingaleiki og hefur verið stígandi í leik liðsins, einnig höfum við lent í meiðslum með fjóra leikmenn, Jónatan Bow, Hermann Hauksson, Ólafur Ægisson og Tómas Hermannsson og eru þeir á leið inn í prógrammið hjá okkur og ættu þeir að vera komnir í toppform um miðjan nóvember. Aðrir leikmenn hafa æft mjög vel og samviskulega og á það eftir að koma þeim til góða þegar dæmið byrjar. Við höfum misst þrjá leikmenn frá því í fyrra og vantar einn, það eru Jesper Sörensen sem fór aftur til Danmerkur, Jakob Örn Sigurðarson og Helgi Már Magnússon sem báðir fóru til Westminster High School á Flórida. Við eigum eftir að sakna þeirra en það kemur maður í manns stað og við KR-ingar óskum þeim góðs gengis! Til baka hafa komið Hermann Hauksson frá Njarðvík og hefur hann æft mjög vel í sumar og lítur ágætlega út þrátt fyrir að bakið hafi hrjáð hann á síðust vikum, einnig kom afur til okkar Tómas Hermannsson frá KFÍ og mun hann styrkja okkur mikið ásamt Hermanni. Það má geta þess að Jón Arnór Stefánsson er að spila sínu fyrstu deildarleiki, þar sem hann spilaði einungis með okkur í úrslitakeppninni á síðasta tímabili. Í okkar liði eru 17 leikmenn að æfa og eins og gefur að skilja er mikil samkeppni í liðinu sem er af hinu góða, þar sem góðir yngriflokkar eru að skila sér, yngsti leikmaðurinn er fæddur´83 og eru þessir ungu menn á bilinu ´83 til ´79. Það sýnir okkur að meðalaldur liðsins er 21,6 ár. Þessir ungu menn setja skemmtilegan svip á liðið sem inniheldur líka reynda leikmenn á borð við Jónatan, Hermann, Tómas og Óla Jón. Í ár mun Arnar Kárason spila með okkur heilt tímabil en hann náði sér ekki á strik í fyrra, það er mikið tilhlökkunarefni að sjá þennan góða leikmann á fullu aftur og það í herbúðum okkar KR-inga. Fyrirliði okkar Ólafur Jón Ormsson er í feiknagóðu formi og á hann eftir að draga ungu strákana með sér í áttina að titilvörn okkar þetta tímabil. Ég vona að fólk komi til með að fjölmenna á völlinn í vetur og gera þar með umgjörðina og leikina skemmtilegri fyrir alla og ég skal lofa skemmtilegum leikjum í vetur, hvar sem þeir verða!