Talsverðar breytingar hafa orðið á kvennaliði KR fyrir tímabilið sem nú er að hefjast. Máttarstólpar í liðinu undanfarin ár, þær Guðbjörg Norðfjörð og Linda Stefánsdóttir, eru ekki með þar sem Guðbjörg á von á barni í desember og Linda er að jafna sig á slæmum hnémeiðslum. Í staðinn fyrir þær koma tvær landsliðsstúlkur, þær Helga Þorvaldsdóttir, sem hefur náð sér af meiðslum sem háðu henni allan síðastliðinn vetur, og Birna Eiríksdóttir, sem kemur til KR liðsins frá Tindastóli. Einnig hefur liðið öðlast meiri breidd í nokkrum öðrum nýjum leikmönnum. Það er hins vegar ljóst að talsverðan tíma tekur fyrir liðið að slípast og finna þann takt sem liðið þarf að ná ef það ætlar sér að gera góða hluti í vetur. Á þessari stundu er erfitt að gera sér grein fyrir styrk KR liðsins þar sem breytingar hafa einnig orðið á liðum helstu keppinauta KR undanfarin ár þ.e. Keflavík og ÍS. Þrátt fyrir ofangreindar breytingar á liðinu þá er liðið eftir sem áður borið uppi af reyndum leikmönnum sem hafa verið í eldlínunni með liði KR undanfarin ár. Þar er ég helst að tala um landsliðskonurnar Kristínu Jónsdóttur fyrirliða KR, Hönnu Kjartansdóttir varafyrirliða, Hildi Sigurðardóttur og Grétu Grétarsdóttur, auk þeirra sem getið hefur verið að ofan. Það er ljóst að miklir hæfileikar búa í liðinu og spurningin er einungis sú hvort hugarfarið verði nógu gott og metnaðurinn verði nægilega mikill til að liðið nái ásættanlegu sæti þegar uppi er staðið næsta vor. Markmið körfuknattleiksdeildar KR er að hafa alltaf á að skipa einu af bestu liðum landsins og svo er einnig í ár. Ég á von á jöfnu móti í vetur og er að mínu mati ógerningur að spá um það hvaða lið stendur uppi sem sigurvegari næsta vor.