
9 okt. 2025Spiideo vélar verða á næstu vikum settar upp í öll íþróttahús aðildarfélaga KKÍ, þeim að kostnaðarlausu. Uppsetning vélanna er liður í samkomulagi KKÍ og Sýnar sem unnið hefur verið að síðustu tvö ár.
Í samkomulaginu segir meðal annars að öll lið í tveimur efstu deildunum fá Spiideo myndavél sem sýnt getur beint frá neðri deildum og leikjum yngri flokka. Ljóst er að þetta er mikil tæknibylting fyrir sambandið og félögin sem mun nýtast þeim á margvíslegan hátt. Félögin munu einnig fá greiningartól sem þau geta nýtt sér og sínum liðum að kostnaðarlausu.
Uppsetning myndavélanna er nú þegar hafin og þegar allar eru komnar upp munu allir leikir 1 deildar karla og kvenna verða aðgengilegir í sjónvarps appi Sýnar, frá og með áramótum verður svo einnig hægt að nálgast þar valda leiki yngri flokka einnig.
Með þessum samning vonast KKÍ eftir að auka möguleikann á tekjuaukningu fyrir félögin í kringum auglýsingar fyrir útsendingar, auka sýnileika félagana og yngri flokka þeirra og efla faglega þætti starfsins með greiningartólinu.