
25 sep. 2025
Vegna opinberrar umræðu um málefni körfuknattleiksdómara undanfarna daga er
mikilvægt að hafa í huga að í öllum málum og sér í lagi í mannlegum samskiptum þá eru
alltaf í það minnsta tvær hliðar.
KKÍ hefur verið legið á hálsi fyrir að veita ekki viðtöl eða segja sín hlið á málum.
Málefni er snúa að einstaklingum eru viðkvæm og gæta þarf sérstaklega að
persónuverndarsjónarmiðum í þeim efnum. Þetta bindur hendur KKÍ.
KKÍ vill ekki og telur sig hvorki geta né vera heimilt að tjá sig ítarlega um sína hlið eins og
kynni að vera nauðsynlegt til þess að allir geti skilið fyllilega þær erfiðu aðstæður sem eru
nú komnar upp.
Þegar kemur að samskiptum einstaklinga þá er það stundum þannig að upp geta komið
samskiptaörðugleikar og þá sjá aðilar hlutina ekki í sama ljósi eða líta ekki málin sömu
augum.
Málefnið verður því þyngra og erfiðara að ná utan um og leysa. Þó reynt sé að ná utan um
erfiðleikana, fyrirgefa, sættast og halda áfram að vinna saman þá tekst það því miður ekki
alltaf eins og reyndin hefur verið í þessu tilfelli. Þetta er raunin jafnvel þó að í þessu tilfelli
hafi verið fenginn utanaðkomandi hlutlaus aðili til þess að miðla málum og reyna að ná
sáttum.
Öllum sem að málinu koma frá KKÍ þykir leitt hvar málið er statt.
Eins og nefnt er hér að framan þá eru þessi mál viðkvæm og oft ekki hjálplegt að tjá sig um
þau á opinberum vettvangi enda þótt KKÍ hafi nú fundið sig tilknúið til þess að veita frekari
upplýsingar um málið með þessari yfirlýsingu.