19 sep. 2025

Kveðja frá Körfuknattleikssambandi Íslands

 

Í dag kveðjum við Guðrúnu okkar, konu sem gaf körfuboltanum hjarta sitt, tíma sinn og ómetanlegan kraft. Missir hennar er sár fyrir okkur í KKÍ og körfuboltafjölskyldunni, en fyrir fjölskyldu hennar og nánustu vini er hann djúpstæð sorg sem erfitt er að setja í orð.

 

Guðrún var hluti af körfuboltafjölskyldunni í langan tíma. Hún byrjaði sem stuðningskona KR og samstarfsaðili í gegnum Bæjarins Beztu, síðar sem formaður körfuknattleiksdeildar KR og nú síðast sem annar varaformaður KKÍ. Hún var KR-ingur í húð og hár, en þegar kom að hagsmunum körfuboltans í heild lagði hún alltaf félagshollustuna til hliðar, því fyrir Guðrúnu skipti máli að íþróttin sjálf blómstraði.

 

Það var einstakt að fá að vinna með Guðrúnu. Hún kom með mikla reynslu úr atvinnulífinu og hafði einstakt lag á að vinna með fólki, hvort sem það voru sjálfboðaliðar, stjórnarfólk eða leikmenn. Hún var að sama skapi hreinskilin, hlý, úrræðagóð og traust og hún vann af heilindum, alltaf með hjartað á réttum stað.

 

Við í KKÍ og körfuboltafjölskyldunni syrgjum í dag góða vinkonu, traustan liðsmann og ómetanlegan stuðningsaðila. Um leið erum við þakklát, þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Guðrúnu, vinna með henni og njóta hennar hlýju og vináttu. Hún skilur eftir sig spor sem munu lifa áfram í hjörtum okkar og í starfi körfuboltans á Íslandi.

 

Fjölskyldu og vinum Guðrúnar sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur og hugheilar hugsanir.

 

Kristinn Albertsson, formaður KKÍ

Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ