18 jún. 2016
Það skiptust á skin og skúrir hjá íslensku U15 liðunum á Copenhagen Invitational í dag. 1 sigur og 3 töp.
Strákarnir byrjuðu daginn á að mæta Finnlandi í úrslitaleik um fyrsta sætið í riðlinum. Þeir byrjuðu mjög vel og leiddu 25-20 eftir fyrsta leikhluta og 46-34 í hálfleik. Í þriðja leikhluta fór að halla undan fæti og Finnarnir að hitta vel utan við þriggja stiga línuna og eftir þriðja leikhluta voru þeir komnir yfir 57-61 og að lokum fór svo að Finnar sigruðu 85-70. Þau úrslit þýddu að liðið endaði í öðru sæti í riðlinum en Íslendingar, Finnar og Skotar enduðu allir jafnir. Finnar voru með bestu stöðuna í innbyrðisviðureignum, en aðeins munaði tveimur stigum á því að Ísland kæmist áfram. Stigaskor: Júlíus 18, Dúi 14, Ingimundur 12, Árni 9, Veigar 6, Baldur 4, Kolbeinn 4 og Valdimar 2
Strax á eftir mættu stelpurnar Hollandi og þrátt fyrir nokkurn hæðarmun höfðu okkar stelpur í fullu tréi við þær hollensku og gott betur, eftir fyrsta leikhluta leiddi Holland 11-12. Í öðrum leikhlutanum fóru þær íslensku á mikið flug og leiddu 33-25 í hálfleik og í þeim þriðja skoruðu Hollendingarnir bara 3 stig gegn 10 stigum þeirra íslensku og staðan því 43-28. Hollendingar minnkuðu aðeins muninn í lokaleikhlutanum og lokatölur urðu 57-47 fyrir Ísland og liðið í öðru sæti í riðlinum. Hófst þá mikil bið og leit að úrslitum úr öðrum leikjum því það lið sem var í öðru sæti með bestan árangur komst í undanúrslit. Íslenska liðið var með 4 stig og 12 stig í plús. Þegar úrslitin birtust kom í ljós að Svíar voru með 4 stig og 10 stig í plús og Hollendingar með 4 stig og 8 í plús. Íslensku stelpurnar voru því komnar í undanúrslit. Stigaskor: Ásta 11, Anna 11, Ólöf 9, Sigrún 8, Eygló 6, Hrefna 4, Jenný 3, Sigurbjörg 2, Alexandra 2 og Stefanía 1.
Seinni leikur drengjanna var svo gegn belgísku akademíunni Topsportschool VBL í keppni um 5. til 8. sæti. Liðið er fyrnasterkt, með mikla hæð og hafði rétt tapaði úrslitaleiknum í sínum riðli. Strákarnir spiluðu frábæran bolta lengst af í leiknum og var hann einnig jafn og spennandi lengst af, Ísland leiddi 20-17 eftir fyrsta leikhluta og 42-34 í hálfleik. Í þriðja leikhluta kom hinn týpíski íslenski þriðji hluti og Belgarnir komust yfir 60-57 fyrir fjórða leikhluta. Íslensku strákarnir hófu seinasta leikhlutann vel og komust 7 stigum yfir en hræðilegur lokakafli varð til þess að þeir belgísku unnu 80-72. Það þýðir að íslenska liðið spilar um 7. sætið við Niedersachen klukkan 8:30 í fyrramálið. Stigaskor: Júlíus 23, Dúi 14, Ingimundur 8, Veigar 8, Gunnar 7, Árni 6, Valdimar 4, Kolbeinn 2 og Baldur 1.
Lokaleikur dagsins var svo undanúrslitaleikur stelpnanna gegn Finnlandi sem var með bestan árangur í 1. sæti riðlakeppninnar. Það var ljóst strax frá upphafi að á brattann yrði að sækja, eftir fyrsta leikhluta leiddu Finnar 20-6 og í hálfleik var staðan 35-13. Íslensku stelpurnar minnkuðu muninn í þriðja leikhluta og eftir hann var staðan 45-25 en í lokahlutanum sigldu þær finnsku stelpurnar okkar í kaf og lokatölur voru 70-30. Stelpurnar mæta því Danmörku í leik um bronsið klukkan 10:30 á morgun. Stigaskor: Ásta 8, Sigurbjörg 6, Anna 4, Alexandra 3, Ólöf 2, Eygló 2, Sigrún 2, Vigdís 2 og Fanndís 1.