25 jan. 2006Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá er gamla góða Ólympíuhugsjónin – eða eftir atvikum ungmennafélagsandinn – ekki eini hvatinn til að stunda og fylgjast með íþróttum nútímans. Þótt yfirgnæfandi stærstur hluti þeirrar starfsemi sem við kennum við íþróttahreyfingu sé hollur og heilbrigður leikur – samfélagslega mikilvæg forvörn og mannrækt – þá verður á sama tíma vart litið framhjá þeirri staðreynd að sá hluti starfseminnar sem er hvað sýnilegastur almenningi felst fremur í afþreyingu og skemmtun í formi áhorfs. Íþróttir eru að því leyti harður skemmtanaiðnaður. Hvort sem litið er á málin í alþjóðlegu samhengi, eða í þröngu samhengi okkar litla Íslands, þá má segja að eðlilegt jafnvægi þessara tveggja þátta styðji hvorn annan. Grasrótarstarf er forsenda þess til staðar séu leikmenn, heilbrigð uppbygging forsenda þess að íþróttir höfði til almennings, og forsenda þess að foreldrar telji æskilegt að börn sín stundi íþróttir. En með sama hætti er toppur afreksíþróttanna gjarnan sá hvati sem heldur einstaklingum í skipulögðu íþróttastarfi fram á fullorðinsár – það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við drauma um frægð og frama, og jafnvel góðar tekjur af ástundun áhugamáls síns. Á síðustu tveimur áratugum eða svo hefur orðið bylting að því er varðar umfang þess fjármagns sem vissir þættir íþróttahreyfingarinnar hafa fengið yfir að ráða, einkum í krafti myndarlegra sjónvarps- og auglýsingasamninga. Á þessum tíma má segja að íþróttir hafi – sem skemmtiefni – færst að nokkru upp að hlið kvikmyndaheimsins í Hollywood að því er varðar forsendur fyrir því að skapa stjörnur sem almenningur er reiðubúinn að greiða umtalsverða fjármuni fyrir að berja augum. Aukinn sýnileiki og alþjóðleg frægð fylgdu hinni nýju fjölmiðlun. Á þessum tíma hafa komið fram stjörnur á borð við Michael Jordan, Tiger Woods og David Beckham, sem eiga það sameiginlegt að sameina bestu kosti líkama og sálar samhliða einstökum íþróttahæfileikum. Hafa því auglýsendur keppst um að gera við þá mikla auglýsingasamninga. Efast ég ekki um að t.a.m. framangreindar þrjár hetjur hafi staðið undir hverri krónu sem fjárfest hefur verið á þann hátt - og sem betur fer ennfremur verið góðar fyrirmyndir barna og unglinga um allan heim. Hér á litla Íslandi virðist þetta afar fjarlægur raunveruleiki. Þrátt fyrir mikið stolt okkar af því að hafa nýlega fagnað þrjú hundruð þúsundasta íbúa landsins þá er deginum ljósara að á slíkum örmarkaði geta ekki skapast sömu forsendur fyrir tekjustreymi til íslenskra íþróttamanna og til stórstjarnanna erlendis. Raunveruleikinn er fólginn í umgjörð metnaðarfullra sjálfboðaliða sem reyna að semja við afreksmenn sína um tilteknar kostnaðargreiðslur og ef til vill einhverja bónusa fyrir góðan árangur – sem vonandi næst til baka í næsta auglýsingasamningi eða styrkveitingu. Í íslensku viðskiptalífi hefur umfjöllun um ofurlaun verið hátt á baugi upp á síðkastið. Ofurlaun eru hinsvegar líklega nokkuð fjarri raunveruleika hins íslenska íþróttaheims. Starfslokasamningar eru frekar óþekkt hugtak, og þekkjast e.t.v. helst í tengslum við umskipti innan einhverrar ótryggustu starfsstéttar sem þekkist – þjálfarastéttarinnar, þótt varla séu þeir samningar af tölulegri stærðargráðu Sven Görans eða íslenskra stórfyrirtækja upp á síðkastið. Þó má segja að frekari samanburður íþrótta og viðskiptalífs geti að einhverju leyti leitt til svipaðra einkenna – en það myndi þá helst vera fólgið í tískuorðinu “útrás”. “Útflutningur” íslenskra íþróttamanna hefur í einhverjum tilvikum opnað fyrir umræðu um ofurlaun. Ber þar vissulega hæst íþróttamann ársins, Eið Smára Guðjohnsen, en ennfremur má ætla að íþróttamenn úr fleiri íþróttagreinum hafi allsendis dágóð laun fyrir íþróttaiðkun sína – a.m.k. ef miðað er við fortíðina. Vangaveltur um ofurlaun í íþróttum tengjast órjúfanlega þeim sjónarmiðum hvort slíkt sé “nauðsynlegt” eða “æskilegt”. Myndu þessir aðilar ekki halda íþróttaiðkun sinni áfram þótt öll laun yrðu lækkuð um helming? Þeir væru enn mun betur launaðir en í hvaða daglaunastarfi sem er. Málið snýst að vissu leyti um að samkeppnisumhverfi íþrótta er harkalegt - það er einungis sá besti sem sigrar. Sá sem er í öðru sæti gleymist fljótt, og leiðir þetta af sér visst uppboð á þeim bestu. Sú þróun sem leitt hefur til ofurlauna íþróttamanna hefur valdið ýmsum áhyggjum varðandi jafnvægi uppbyggingarstarfs og afreksstarfs. Undirritaður er í hópi þeirra sem vara við þeirri þróun að íþróttamennirnir sjálfir og jafnvel fjárfestar sem leita að skyndigróða, stýri þeirri þróun. Án grasrótar, uppbyggingar og hugsjóna mun þetta fyrirkomulag hrynja eins og spilaborg. Ég tel a.m.k. æskilegt að íslensk íþróttahreyfing fari varlega í að þiggja boð um dans kringum þennan gullkálf. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ.
Formannspistill - Ofurlaun í íþróttum
25 jan. 2006Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá er gamla góða Ólympíuhugsjónin – eða eftir atvikum ungmennafélagsandinn – ekki eini hvatinn til að stunda og fylgjast með íþróttum nútímans. Þótt yfirgnæfandi stærstur hluti þeirrar starfsemi sem við kennum við íþróttahreyfingu sé hollur og heilbrigður leikur – samfélagslega mikilvæg forvörn og mannrækt – þá verður á sama tíma vart litið framhjá þeirri staðreynd að sá hluti starfseminnar sem er hvað sýnilegastur almenningi felst fremur í afþreyingu og skemmtun í formi áhorfs. Íþróttir eru að því leyti harður skemmtanaiðnaður. Hvort sem litið er á málin í alþjóðlegu samhengi, eða í þröngu samhengi okkar litla Íslands, þá má segja að eðlilegt jafnvægi þessara tveggja þátta styðji hvorn annan. Grasrótarstarf er forsenda þess til staðar séu leikmenn, heilbrigð uppbygging forsenda þess að íþróttir höfði til almennings, og forsenda þess að foreldrar telji æskilegt að börn sín stundi íþróttir. En með sama hætti er toppur afreksíþróttanna gjarnan sá hvati sem heldur einstaklingum í skipulögðu íþróttastarfi fram á fullorðinsár – það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við drauma um frægð og frama, og jafnvel góðar tekjur af ástundun áhugamáls síns. Á síðustu tveimur áratugum eða svo hefur orðið bylting að því er varðar umfang þess fjármagns sem vissir þættir íþróttahreyfingarinnar hafa fengið yfir að ráða, einkum í krafti myndarlegra sjónvarps- og auglýsingasamninga. Á þessum tíma má segja að íþróttir hafi – sem skemmtiefni – færst að nokkru upp að hlið kvikmyndaheimsins í Hollywood að því er varðar forsendur fyrir því að skapa stjörnur sem almenningur er reiðubúinn að greiða umtalsverða fjármuni fyrir að berja augum. Aukinn sýnileiki og alþjóðleg frægð fylgdu hinni nýju fjölmiðlun. Á þessum tíma hafa komið fram stjörnur á borð við Michael Jordan, Tiger Woods og David Beckham, sem eiga það sameiginlegt að sameina bestu kosti líkama og sálar samhliða einstökum íþróttahæfileikum. Hafa því auglýsendur keppst um að gera við þá mikla auglýsingasamninga. Efast ég ekki um að t.a.m. framangreindar þrjár hetjur hafi staðið undir hverri krónu sem fjárfest hefur verið á þann hátt - og sem betur fer ennfremur verið góðar fyrirmyndir barna og unglinga um allan heim. Hér á litla Íslandi virðist þetta afar fjarlægur raunveruleiki. Þrátt fyrir mikið stolt okkar af því að hafa nýlega fagnað þrjú hundruð þúsundasta íbúa landsins þá er deginum ljósara að á slíkum örmarkaði geta ekki skapast sömu forsendur fyrir tekjustreymi til íslenskra íþróttamanna og til stórstjarnanna erlendis. Raunveruleikinn er fólginn í umgjörð metnaðarfullra sjálfboðaliða sem reyna að semja við afreksmenn sína um tilteknar kostnaðargreiðslur og ef til vill einhverja bónusa fyrir góðan árangur – sem vonandi næst til baka í næsta auglýsingasamningi eða styrkveitingu. Í íslensku viðskiptalífi hefur umfjöllun um ofurlaun verið hátt á baugi upp á síðkastið. Ofurlaun eru hinsvegar líklega nokkuð fjarri raunveruleika hins íslenska íþróttaheims. Starfslokasamningar eru frekar óþekkt hugtak, og þekkjast e.t.v. helst í tengslum við umskipti innan einhverrar ótryggustu starfsstéttar sem þekkist – þjálfarastéttarinnar, þótt varla séu þeir samningar af tölulegri stærðargráðu Sven Görans eða íslenskra stórfyrirtækja upp á síðkastið. Þó má segja að frekari samanburður íþrótta og viðskiptalífs geti að einhverju leyti leitt til svipaðra einkenna – en það myndi þá helst vera fólgið í tískuorðinu “útrás”. “Útflutningur” íslenskra íþróttamanna hefur í einhverjum tilvikum opnað fyrir umræðu um ofurlaun. Ber þar vissulega hæst íþróttamann ársins, Eið Smára Guðjohnsen, en ennfremur má ætla að íþróttamenn úr fleiri íþróttagreinum hafi allsendis dágóð laun fyrir íþróttaiðkun sína – a.m.k. ef miðað er við fortíðina. Vangaveltur um ofurlaun í íþróttum tengjast órjúfanlega þeim sjónarmiðum hvort slíkt sé “nauðsynlegt” eða “æskilegt”. Myndu þessir aðilar ekki halda íþróttaiðkun sinni áfram þótt öll laun yrðu lækkuð um helming? Þeir væru enn mun betur launaðir en í hvaða daglaunastarfi sem er. Málið snýst að vissu leyti um að samkeppnisumhverfi íþrótta er harkalegt - það er einungis sá besti sem sigrar. Sá sem er í öðru sæti gleymist fljótt, og leiðir þetta af sér visst uppboð á þeim bestu. Sú þróun sem leitt hefur til ofurlauna íþróttamanna hefur valdið ýmsum áhyggjum varðandi jafnvægi uppbyggingarstarfs og afreksstarfs. Undirritaður er í hópi þeirra sem vara við þeirri þróun að íþróttamennirnir sjálfir og jafnvel fjárfestar sem leita að skyndigróða, stýri þeirri þróun. Án grasrótar, uppbyggingar og hugsjóna mun þetta fyrirkomulag hrynja eins og spilaborg. Ég tel a.m.k. æskilegt að íslensk íþróttahreyfing fari varlega í að þiggja boð um dans kringum þennan gullkálf. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ.