Mikil spenna ríkir í Grafarvogi vegna komandi keppnistímabils 2000-2001. Valur og Fjölnir eru nú komin í eina sæng í körfuboltanum og sameinað lið þeirra mun spila í Epson deildinni undir nafni Vals. Fjölnir hefur aldrei áður telft fram liði í úrvalsdeildinni. Liðið samanstendur að miklu leyti af Valsliðinu frá því í fyrra, sem vann sig upp úr fyrstu deild eftir eins árs veru þar. Þó hefur bæst við nokkur liðsstyrkur og ber þar fyrst að nefna landsliðsmanninn Herbert Arnarson. Herbert hefur spilað sem atvinnumaður í Hollandi og Belgíu undanfarin ár en hefur nú snúið heim. Við bindum miklar vonir við Herbert. Reynsla hans á eftir að vega þungt á skálunum hjá okkur í vetur og við komum til með að treysta mikið á hann bæði í sókn og vörn. Þrír aðrir íslenskir leikmenn eru komnir aftur í Val eftir einn vetur á Akranesi, en það eru stærsti maðurinn í deildinni, miðherjinn Hjörtur Hjartarson (209 cm), bakvörðurinn/framherjinn Brynjar Karl Sigurðsson og framherjinn Magnús Guðmundsson. Hjörtur er mjög líkamlega sterkur, en hefur ekki spilað mikinn körfubolta og er enn að læra leikinn. Við vonum að hann læri hratt í vetur, en þurfum mest á honum að halda í vörninni þar sem hann getur blokkað og breytt fjölda skota andstæðinganna undir körfunni, og tekið fyrir okkur fráköst. Brynjar er geysilega öflugur og fjölhæfur leikmaður sem hefur átt við meiðsl að stríða undanfarin ár en hefur aldrei verið í betra formi í byrjun tímabils og verður gaman að sjá til hans í vetur. Við bindum miklar vonir við hann í vetur því hann getur styrkt liðið verulega bæði sem varnarmaður og sóknarmaður. Magnús gæti orðið leynivopnið okkar í vörninni sérstaklega, því hann hefur mjög langa handleggi og kemur mönnum oft í opna skjöldu þegar hann er inni á vellinum. “Gömlu” Valsararnir Bjarki Gústafsson, Guðmundur “Mummi” Björnsson, Sigurbjörn Björnsson og Kjartan Orri Sigurðsson koma líka til með að spila mikilvæg hlutverk í þessu liði. Þeir hafa æft stíft í sumar í undirbúningi fyrir tímabilið. Einnig má nefna Steindór Aðalsteinsson, en reynsla hans og baráttugleði gæti vegið þungt á skálum þessa hóps. Pétur Már Sigurðsson er kominn aftur eftir nokkur ár á Ísafirði og hefur sýnt góða takta í sumar með þessum hóp. Einnig eru nokkrir ungir piltar sem verður gaman að fylgjast með þegar tekur að líða á veturinn, en þeir verða burðarásar drengja og unglingaliðanna hjá sameinuðu liðum Vals og Fjölnis. Auk þessara leikmanna verða tveir útlendingar í liðinu, en það eru króatinn Drazen Jozic, sem verður leikstjórnandinn okkar og Delawn Grandison, Kanadamaður upp á 194 cm sem getur bæði spilað framherja og miðherja. Báðir komu úr háskólum í Bandaríkjunum í vor þar sem þeir spiluðu mikilvæg hlutverk í liðum sínum. Þetta er ungt lið ennþá og býr ekki yfir mikilli reynslu. Það er þó nokkur breidd í þessu liði en ekki mikil hæð. Við setjum samt stefnuna beint á úrslitakeppnina fyrsta árið undir merkjum Vals og Fjölnis. Hversu framarlega liðið kemst í úrslitaröðina fer allt eftir því hversu vel hinn nýji þjálfari liðsins nær tökum á leikmönnunum og hversu fljótt honum tekst að blanda þeim saman!