8 júl. 2020

Í júní var tilkynnt að NM yngri liða U16 og U18 hefði verið sett á aftur eftir að mótið var fellt niður vegna COVID-19 faraldursins en ljóst var að Svíar og Norðmenn myndu ekki taka þátt. Núna hefur KKÍ tekið þá þungbæru og erfiðu ákvörðun að hætta við þátttöku Íslands á NM-móti yngri landsliða í ár í Finnlandi í byrjun ágúst.
 
Undanfarna daga hefur verið fundað með yfirvöldum vegna stöðunnar á COVID-19 faraldrinum og með tilliti til ferðalaga til og frá landinu. Fulltrúar KKÍ hafa átt virkilega góða og upplýsandi fundi með yfirvöldum til að fara yfir stöðuna sem uppi er og hugsanlega verður næstu vikurnar. Yfirvöld banna engum að ferðast ferðast en með tilliti til sóttvarna er það koðun þeirra í dag að best sé sleppa ferðalögum til útlanda sé þess kostur. Það hefur alltaf legið fyrir að KKÍ myndi fylgja ráðleggingum yfirvalda áður en lagt yrði af stað í ferðina.
 
KKÍ telur best að taka ábyrga afstöðu áfram eins og sambandið hefur gert frá því COVID-19 faraldurinn hófst og þurfum við því miður að sleppa NM að þessu sinni. KKÍ getur ekki tekið neina sénsa þegar kemur heilsufari hópsins . Í júní þegar farið var af stað aftur með mótið var von okkar allra að staðan yrði betri í heiminum en hún er í dag en það er því miður ekki raunin.
 
Þetta er svo sannarlega erfið og þung ákvörðun. Mikil bjartsýni ríkti í júní um þátttöku á NM en við sem samband berum ábyrgð á okkar einstaklingum og íþrótt og verðum að hafa tilmæli yfirvalda og sóttvarna númer eitt í því ástandi sem við lifum núna. Þótt staðan sé ansi góð á Íslandi og nokkrum öðrum löndum þá verðum við að hafa sóttvarnir alls hópsins í forgangi og bera þá ábyrgð sem við höfum öll í okkar samfélagi. Mikilvægt er að við öll sem samfélag tökum þátt í að halda COVID-19 faraldrinum sem mest í skefjum hér á Íslandi, en ákvörðun KKÍ er tekin með hagmsuni okkar allra að leiðarljósi.
 
KKÍ getur ekki ekki beðið með þessa ákvörðun lengur í ljósi alls undirbúnings næstu daga og vikna. Finnar og hinar tvær þjóðirnar ( Eistland og Danmörk) geta heldur ekki beðið mikið lengur né Icelandair svo ekki sé talað um plan allra þeirra rúmlega 70 einstaklinga sem eru í okkar hópi fyrir NM.
 
Liðiin komu saman til æfingar um síðastliðna helgi og ákvörðun hefur hins vegar verið tekin um að æfingahelgi tvö verði haldin samkvæmt fyrri  dagskrá en þeirri þriðju sleppt. U16 liðin sem og U18 stúlkur æfa 17.-19. júlí en U18 strákarnir 24.-27. júlí.
 
KKÍ þakkar yfirvöldum sóttvarna og almannavarna fyrir upplýsandi og hreinskiptin svör núna sem og undanfarna mánuði, einnig þakkar KKÍ leikmönnum og foreldrum fyrir þolinmæði og sýna þessari erfiðu stöðu skilning.
 
KKÍ þakkar öllum sem hafa komið að undirbúningi og vinnu undanfarnar vikur eftir að reynt var að halda NM yngri landsliða aftur.