23 feb. 2020

Íslenska karlalandsliðið vann mikilvægan sigur í kvöld er þeir lögðu Slóvakíu að velli 83-74 í Laugardalshöll. Þar með er liðið komið með sigur í riðli sinum í forkeppni HM 2023.

Tryggvi Snær Hlinason var fyrirferðarmikill á báðum endum vallarins en hann skoraði 26 stig, tók 17 fráköst og varði átta skot en þessi vörðu skot voru öll komin um miðjan þriðja leikhluta. Næstur honum í stigaskorun var Sigtryggur Arnar Björnsson en hann setti 16 stig og svo kom Kári Jónsson með 15 stig. Pavel Ermolinskij var að daðra við þrennu eins og Tryggvi Snær en Pavel gaf 11 stoðsendingar, tók tíu fráköst og setti sjö stig.

Íslenska liðið var sterkara allan leikinn og leiddu allan tímann. Þó gáfust gestirnir aldrei upp og þurftu leikmenn Craig Pedersen að hafa fyrir sigrinum. Þar sem þetta er fyrri leikur liðanna í riðlinum þá getur stigamunur skipt sköpum og notuðu þjálfara beggja lið öll leikhlé í lokin til að færa boltann upp völlinn til að ná fleiri skotum.

Þar með er þessum glugga lokið og er Ísland með einn sigur og einn tapleik.

Tölfræði leiksins

Mynd/Jónas Ottósson: Ægir Þór Steinarsson og Tryggvi Hlinason fagna sigri