13 des. 2019Helena Sverrisdóttir og Martin Hermannsson hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2019 af KKÍ. Þetta er í 22. skipti sem valið er tvískipt milli karla og kvenna eða allt frá árinu 1998.

Körfuknattleikskona og karl ársins eru valin í kosningu af stjórn, starfsmönnum, afreksnefnd og landsliðsþjálfurum allra landsliða KKÍ í verkefnum á árinu 2019.

Helena og Martin er nafnbótinni góðu kunn, Martin er að fá tilnefninguna í fjórða skipti og fjórða árið í röð og Helena er að hljóta hana í 12. sinn á síðustu 15 árum.

Val á körfuknattleikskonu ársins 2019:

Körfuknattleikskona ársins 2019:
1. Helena Sverrisdóttir
2. Hildur Björg Kjartansdóttir
3. Þóra Kristín Jónsdóttir
 
Aðrar sem fengu atkvæði í stafrófsröð eru:
Guðbjörg Sverrisdóttir
Gunnhildur Gunnarsdóttir
Hallveig Jónsdóttir
Lovísa Björt Henningsdóttir
Sara Rún Hinriksdóttir
Thelma Dís Ágústsdóttir

Helena Sverrisdóttir · Valur
Helena hefur verið valin „Körfuknattleikskona árins“ 12 sinnum á síðustu 15 árum sem er einstakt afrek og hefur hlotið nafnbótina lang oftast hjá konunum. Helena var lykilleikmaður Vals á síðustu leiktíð og leiddi lið sitt til deildarmeistaratitils, Íslandsmeistaratitils sl. vor eftir úrslitakeppnina og Bikarmeistaratitils í febrúar, en þetta voru fyrstu stóru titlar kvennakörfunnar í Val. Helena lauk tímabilinu með því að vera kjörin besti leikmaðurinn í deildinni á lokahófi KKÍ. Í ár er hún sá íslenski leikmaður sem hefur að meðaltali skorað mest, tekið flest fráköst og skilar hæðsta framlaginu í deildinni. Með íslenska landsliðinu hefur Helena eins og á undanförnum árum leikið mjög vel, bæði í síðustu undankeppni þar sem hún fór fyrir liðinu í helstu tölfræðiþáttum sem og í nýhafinni undankeppni FIBA Europe þar sem hún leiðir liðið í tölfræðiþáttum yfir stig skoruð, fráköstum og er önnur yfir flestar stoðsendingar.

Hildur Björg Kjartansdóttir · KR
Hildur Björg lék sem atvinnumaður sl. tvö ár en kom til KR í upphafi tímabilsins og hefur leikið mjög vel það sem af er tímabili. Hildur Björg hefur sýnt góðan og fjölhæfan leik með liði sínu og er næsthæsti íslenski leikmaðurinn yfir stig skoruð, fráköst og framlag að meðaltali í deildinni. Hildur er ein af lykilleikmönnum íslenska landsliðsins og hefur verið það á síðustu árum. Í undankeppninni sem hófst í nóvember hefur hún sýnt áfram fram á að mikilvægi sitt með því að skila hæsta framlaginu fyrir liðið, er önnur yfir skoruð stig og er sú þriðja frákastahæsta eftir fyrstu leiki Íslands.

Þóra Kristín Jónsdóttir · Haukar
Þóra Kristín varð þriðja í kjörinu í ár líkt og í fyrra. Þóra Kristín átti mjög gott tímabili í fyrravetur með Haukum og hún hefur skilaði stóru hlutverki sem byrjunarliðsmaður í Hafnarfirði. Þóra Kristín hefur fengið stærra hlutverk að auki með íslenska kvennalandsliðinu og hefur verið byrjunarliðsbakvörður liðsins í talsverðan tíma og ljóst að hún verður áfram ein af lykilleikmönnum liðsins á næstu árum. Í undankeppni EM með landsliðinu leiðir Þóra Kristín liðið yfir flestar stoðendingar gefnar í leik og þriðja hæsta framlagið að auki.


Val á körfuknattleikskarli ársins 2019:

Körfuknattleikskarl ársins 2019:
1. Martin Hermansson
2. Tryggvi Snær Hlinason
3. Haukur Helgi Briem Pálsson
 
Aðrir sem fengu atkvæði í stafrófsröð:
Elvar Már Friðriksson
Kristófer Acox
Jón Axel Guðmundsson

Martin Hermannsson · Alba Berlin (Þýskaland)
Martin er kjörinn körfuknattleikskarl ársins með fullt hús stiga. Martin er orðinn einn mikilvægasti leikmaður íslenska landsliðsins á sínu 25. aldursári og hefur sýnt stöðugar framfarir í leik sínum undanfarin ár og hann er einn af framtíðarleikmönnum íslenska landsliðsins. Martin samdi við Alba Berlin fyrir síðasta tímabil þar sem hann átti mjög gott ár og vakti verðskuldaða athygli. Hann átti stóran þátt í velgengni liðsins sem hafnaði í 2. sæti í deild og bikar í Þýskalandi sem og í 2. sæti í Europe Cup þar sem liðið lék oddaleik gegn Valencia. Í ár hefur Martin haldið áfram að bæta sig og orðið annar íslendingurinn til að leika í EuroLeague, meistaradeild Evrópu í körfuknattleik. Þar hefur Martin leikið vel gegn mörgum stærstu liðum deildarinnar og sinnt leiðtogahlutverki með Alba Berlin. Martin hélt uppteknum hætti með íslenska landsliðinu og var leiðtogi þess innan vallar í tölfræðiþáttum eins og stigum skoruðum, stoðsendingum og framlagi á árinu.

Tryggvi Snær Hlinason · Basket Zaragoza (Spánn)
Tryggvi Snær sem hefur tekið miklum framförum ár eftir ár á síðastliðinum árum er nú á sínu þriðja ári sem atvinnumaður í efstu deild á Spáni, sem talin er sú besta í Evrópu. Eftir að hafa leikið með Valencia og Monbus Obradoiro færði hann sig til Zaragoza sem hefur verið spútnik lið ACB deildarinnar fyrir áramót. Þar hefur Tryggvi átt þátt í velgengni liðsins og átt góða leiki og skilað stærra framlagi en á síðasta ári. Tryggvi Snær er framtíðarleikmaður af ungu kynslóðinni með landsliðinu en Tryggvi Snær er fæddur árið 1997 og hefur sýnt þjálfurum landsliðsins stöðuga bætingu á undanförnum árum.

Haukur Helgi Pálsson · Unics Kazan (Rússland)
Eftir góð ár sem atvinnumaður í efstu deild í Frakklandi samdi Haukur Helgi við sterkt lið Unics Kazan í Rússlandi og fór vel af stað í fyrstu leikjunum en hann hefur glímt við meiðsli að undanförnu. Með landsliðinu er hann einn allra mikilvægasti leikmaður þess og hefur sýnt það í síðustu landsleikjum sínum sem hann hefur leikið og var sárt saknað í sumar þegar hann gat ekki verið með þá en áfram verður Haukur Helgi einn mikilvægasti leikmaður okkar á komandi árum. 


Körfuboltafólk ársins frá árinu 1998: 

1998: Helgi Jónas Guðfinnsson og Anna María Sveinsdóttir
1999: Herbert Arnarson og Guðbjörg Norðfjörð
2000: Ólafur Jón Ormsson og Erla Þorsteinsdóttir
2001: Logi Gunnarsson og Kristín Björk Jónsdóttir
2002: Jón Arnór Stefánsson og Birna Valgarðsdóttir
2003: Jón Arnór Stefánsson og Signý Hermannsdóttir
2004: Jón Arnór Stefánsson og Birna Valgarðsdóttir
2005: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2006: Brenton Birmingham og Helena Sverrisdóttir
2007: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2008: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2009: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2010: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2011: Jakob Örn Sigurðarson og Helena Sverrisdóttir
2012: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2013: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2014: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2015: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2016: Martin Hermannsson og Gunnhildur Gunnarsdóttir
2017: Martin Hermannsson og Hildur Björg Kjartansdóttir
2018: Martin Hermannsson og Hildur Björg Kjartansdóttir
2019: Martin Hermannsson og Helena Sverrisdóttir
 
Oftast valin Körfuboltamaður ársins:*
12 Jón Arnór Stefánsson (2002, 2003, 2004, 2005, 2007, 2008, 2009, 2010, 2012, 2013, 2014, 2015)
12 Helena Sverrisdóttir (2005, 2006, 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012, 2013, 2014, 2015, 2019)
4 Martin Hermannsson (2016, 2017, 2018, 2019)
4 Jón Kr. Gíslason (1987, 1989, 1992, 1993)
3 Kristinn Jörundsson (1973, 1975, 1977)
2 Hildur Björg Kjartansdóttir (2017, 2018)
2 Jón Sigurðsson (1976, 1978)
2 Valur Ingimundarson (1984, 1988)
2 Guðmundur Bragason (1991, 1996)
2 Anna María Sveinsdóttir (1994, 1998)
2 Birna Valgarðsdóttir (2002, 2004)
 
*Valið hefur verið tvískipt síðan 1998 en frá 1973 til og með 1997 var aðeins valin einn aðili, karl eða kona, en síðan þá hafa verið valin Körfuknattleiksmaður og Körfuknattleikskona ársins.


#korfubolti