12 jún. 2019

Rúnar Birgir Gíslason sat í gær þriðjudag 11.júní fund hjá FIBA þar sem yfireftirlitsmenn á sumarmótum FIBA Europe í sumar hittust og fóru yfir málin.

Þetta er í fimmta skipti sem FIBA Europe stendur fyrir slíkum fundi en með honum vilja þeir samræma vinnubrögð á öllum 16 Evrópumótum sínum á þessu sumri.

Á fundinum var farið í öll helstu málin sem hafa þarf í huga og einnig að undibúa menn undir það óvænta. Hvernig á að undirbúa mótið áður en komið er á staðinn, vera í sambandi við mótshaldara, viðburðarstjóra FIBA Europe á mótinu, dómara mótsins, aðra eftirlitsmenn, dómaraleiðbeinendur o.fl.
Einnig þurfa yfireftirlitsmenn að huga að því hvernig dagskráin er á mótinu, tæknifundir, yfirferð pappíra, úttekt á aðstæðum og samskipti við hina og þessa. Hvernig niðurröðun dómara fer fram, fundir með dómurum, þjálfurum o.fl.
Í svona mótum er yfireftlitsmaður FIBA Europe á mótinu æðsti fulltrúi FIBA Europe á svæðinu ef enginn stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri FIBA Europe er þar. Honum ber því að mæta fyrir hönd FIBA Europe á viðburði ef þess er óskað og tala máli FIBA og FIBA Europe

Rúnar mun fara sem yfireftirlitsmaður til Tirana í Albaníu í júlí í C deild drengja undir 16 ára þar sem keppa níu þjóðir, Albanía, Andorra, Gíbraltar, Lúxemborg, Malta, Moldova, San Marino, Skotland og Wales. 12 dómarar, 1 annar eftirlitsmaður og 1 dómaraleiðbeinandi.