9 júl. 2017

Það voru sterkir andstæðingar er íslensku stelpurnar mættu í dag í Eilat í Ísrael en í dag var spilað gegn Slóvakíu. Slóvak'ia, líkt og Grikkland, féllu úr A-deild í fyrra og mátti því búast við sterkum andstæðing. 

Í upphafi leiks var leikurinn jafn þar sem bæði lið voru að spila sterka vörn og áttu leikmenn beggja liða í töluverðum vandræðum með að skora. Staðan eftir 4 mínútu leik var 4-6 fyrir Slóvakíu. Hægt og rólega fóru andstæðingarnir að finna leið að körfunni á sama tíma og íslensku stelpurnar áttu í stökustu erfiðleikum með að skora. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 6-15 fyrir Slóvakíu. 

Næstu þrír leikhlutar voru framhald af þeim fyrsta. Þrátt fyrir hetjulega baráttu og oft á tíðum virkilega góða vörn hjá íslensku stelpunum þá gekk okkur hrikalega illa að skora. Eini íslenski leikmaðurinn sem fann körfuna reglulega í leiknum var Thelma Dís Ágústsdóttir sem endaði leikinn með 12 stig og 7 fráköst. Lokatölur leiksins voru 36-68 fyrir Slóvaíku.

Það mátti sjá framfarir í leik stelpnanna frá því í gær. Baráttan var til staðar í bæði vörn og sókn þar sem þær börðust við mun stærri menn af miklum krafti. Tapaðir boltar eru enn vandamál en þeim hefur samt fækkað frá því í seinasta leik en það sem þarf að laga fyrir næstu leiki er að liðinu vantar sárlega framlag frá fleiri leikmönnum en Thelmu. Einnig þurfa stelpurnar að hafa meiri trú á sjálfum sér þegar þær sækja á körfuna og skjóta. Skotnýting liðsins var 20,3% í leiknum í dag og í síðustu tveimur leikjum hefur liðið tekið 41 þriggja stiga skot en aðeins hitt úr tveimur sem gerir um 5% nýtingu í þriggja stiga. Ljóst er að það er erfitt að vinna leiki ef skotnýting liðsins heldur áfram á þennan veg. 

Tölfræði og upptöku úr leiknum má nálgast hér.