27 maí 2017Í leikmannahópi kvennalandsliðsins í ár eru fjórir leikmenn sem eru að fara á sínu þriðju leika í röð. 

Það eru þær Helena Sverrisdóttir, Hildur Björg Kjartansdóttir, Ingunn Embla Kristínardóttir og Sara Rún Hinriksdóttir. Allar léku þær árið 2013 í Lúxemborg, hér heima á Íslandi árið 2015 og eru allar á leiðinni til San Marínó núna á sunnudaginn kemur. 

Helena mun setja met með þátttöku sinni á þessum leikum en hún verður fyrsta konan til að taka þátt í fimm Smáþjóðaleikum. Aðeins Helena og Helga Þorvaldsdóttir, Anna María Sveinsdóttir, Birna Valgarðsdóttir, Björg Hafsteinsdóttir, Guðbjörg Norðfjörð, Hanna Björg Kjartansdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir hafa leikið á fjórum leikum í sögunni.

Þetta verður í 11. sinn sem íslenska kvennalandsliðið tekur þátt í körfuboltakeppni Smáþjóðaleikanna en íslenska liðið var fyrst með á Kýpur árið 1989. Það var ekki keppt í körfubolta kvenna fyrir árið 1989 og körfuboltakeppni kvenna féll einnig niður árin 1999, 2001, 2007 og 2011 en gestgjafi hverra leika á möguleika á því að taka út ákveðinn fjölda greina. Það var ekki keppt í kvennakörfubolta í Liechtenstein 1999, á San Marínó 2001, í Mónakó 2007 og í Liechtenstein 2011. 

Íslensku stelpurnar hafa alls spilað 30 leiki á Smáþjóðaleikunum og unnið 19 þeirra.

Íslenska kvennalandsliðið hefur unnið verðlaun á öllum tíu Smáþjóðaleikunum, eitt gull, sjö silfur og tvö brons. Eina gullið kom á Smáþjóðaleikunum á Íslandi 1997.

Stelpurnar eru því í hefndarhug en tvenna leika í röð hefur íslenska liðið tapað fyrir Lúxemborg og hlotið silfur á leikunum. Nú er spurning hvort þeim tekst að hefna fyrir töpin í síðustu tvö skipti í San Marínó.

Íslenska liðið leikur þrjá leiki á Smáþjóðaleikunum í ár en keppni hefst þriðjudaginn 30. maí. Liðin sem Ísland mætir eru Malta, Kýpur og Lúxemborg.