17 jún. 2016

Nú er fyrsta deginum lokið á Copenhagen Invitational og komnir 3 sigrar og 1 tap hjá íslensku U15 liðunum.

Stelpurnar byrjuðu daginn á að mæta Englendingum og var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur. Þær ensku skoruðu fyrstu körfuna en þá skoruðu íslensku stelpurnar 6 stig í röð og eftir fyrsta leikhluta var staðan 17-8 og ljóst í hvað stefndi, hálfleikstölur 36-14. Áfram héldu stelpurnar að auka forystuna og eftir þriðja leikhluta var staðan 54 -26 og lokatölur voru 70-36. Allar stelpurnar komust á blað í stigaskori og skiptist það þannig að Ólöf Rún Óladóttir skoraði 10, Sigurbjörg Eiríksdóttir 9, Sigrún Ólafsdóttir 9, Ásta Júlía Grímsdóttir 9, Anna Ingunn Svansdóttir 7, Hrefna Óttarsdóttir 6, Stefanía Óskarsdóttir 5, Jenný Lovísa Bendiktsdótti 4, Eygló Jónsdóttir 4, Alexandra Sverrisdóttir 3, Vigdís Þórhallsdóttir 2 og Fanndís Sverrisdóttir 2. 

Hér má sjá helstu atvik leiksins.

Strákarnir mættu Skotum í sínum fyrsta leik. Greinilegt var að stress var í báðum liðum og því fyrsta karfan kom ekki fyrr en eftir tæpar 4 mínútur þegar Kolbeinn Fannar Gíslason skoraði. Strákarnir komust í 11-2 en hrukku aðeins í baklás og fyrsti leikhluti endaði 11-9. Þeir byrjðu svo annan leikhluta vel en aftur datt þetta í baklás í lok hlutans og staðan í hálfleik 33-22. Baráttan hélt áfram og að loknum þriðja leikhluta var staðan 53-40. Á þessum kafla voru þriggja stiga skotin að detta og að lokum vannst öruggur sigur 79-63. Stigaskorði dreifðist þannig að Dúi Þór Jónsson skoraði 33 stig, Gunnar Auðunn Jónsson 10, Kolbeinn Fannar Gíslason 8, Veigar Áki Hlynsson 7, Valdimar Hjalti Erlendsson 6, Júlíus Orri Ágústsson 5, Árni Gunnar Kristjánsson 4, Sigurður Aron Þorsteinsson 3, Ingimundur Orri Jóhannsson 2, Sindri Már Sigurðsson 1, Baldur Örn Jóhannesson og Edvinas Gecas komust ekki á blað að þessu sinni.

Næsta verkefni dagsins var leikur strákanna við Dani. Fyrirfram var búist við hörkuleik en þegar inn á völlinn var komið sýndu íslensku strákarnir strax að það væri misskilningur, þeir skoruðu fyrstu 10 stiginn og sýndu Dönunum á þjóðhátíðardaginn að það væri hátíð. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 35-15, í hálfleik var staðan 63-23, eftir þriðja 90-47 og lokatölur voru 123-65. Liðið sýndi frábæran liðsleik og komust allir á blað í stigaskorinu. Dúi Þór var stigahæstur með 30 stig, Júlíus Orri 23, Ingimundur Orri 16, Veigar Áki 14, Baldur Örn 10, Kolbeinn Fannar 10, Valdimar Hjalti 7, Edvinas 4, Gunnar Auðunn 3, Sigurður Aron 2, Árni Gunnar 2 og Sindri Már 2.

Lokaverkefnið var svo leikur stelpnanna við Danmörku og fóru stelpurnar brattar inn í leikinn eftir góðan sigur á Englendinum fyrr um daginn. Íslensku stelpurnar skoruðu fyrstu 5 stigin en þá smelltu þær dönsku í lás með frábærri pressu og reyndist verkefnið stórt fyrir okkar stelpur. Staðan eftir fyrsta leikhluta 7-14 og 12-30 í hálfleik. Þær dönsku sem voru töluvert hávaxnari en þær íslensku héldu pressunni áfram og eftir þriðja leikhluta var staðan 20-45 og lokatölur 29-61. Ásta Júlía var stigahæst með 6 stig, Sigrún 5, Ólöf 5, Alexandra 5, Jenný 4, Hrefna 3 og Sigurbjörg 1.

Strákarnir hefja daginn á morgun klukkan 9 með leik við Finna og sigur í þeim leik tryggir strákunum sæti í undanúrslitum.

Stelpurnar mæta Hollandi klukkan 11 og er það úrslitaleikur um annað sætið í riðlinum sem getur gefið sæti í undanúrslitum.

Staðan hjá stelpunum.

Staðan hjá strákunum.