16 feb. 2016Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta endurheimtir nú landsliðskonu fyrir komandi verkefni sín í febrúarmánuði. Hin 26 ára gamla Margrét Kara Sturludóttir mun þá leika sína fyrstu landsleiki í fjögur ár. 

Aðeins tvær landsliðskonur hafa misst úr fleiri virk landsliðsár en Margrét Kara Sturludóttir sem kemur nú aftur inn í kvennalandsliðið eftir að hafa misst úr árin 2013, 2014 og 2015. Ólöf Helga Pálsdóttir missti af fimm virkum landsliðsárum milli leikja hjá sér frá maí 2004 til maí 2012 (2005, 2006, 2007, 2008 og 2009) og Stella Rún Kristjánsdóttir var ekki með í fjögur landsliðsár frá því að hún lék á móti Sviss í maí 2000 þar til að hún var í liðinu á móti Englandi í maí 2005 (2001, 2002, 2003, 2004). 

Ívar Ásgrímsson valdi Margréti Köru inn í hópinn sinn fyrir komandi leiki á móti Portúgal og Ungverjalandi en Margrét Kara var ekki með í leikjunum í nóvember.

Margrét Kara tók skóna af hillunni í haust og hóf að leika með nýliðum Stjörnunnar. Hún hefur skorað 11,1 stig, tekið 12,9 fráköst og gefið 4,6 stoðsendingar að meðaltali í leik. Margrét Kara er í 2. sæti yfir flest fráköst og í 3. sæti yfir flestar stoðsendingar. 

Margrét Kara lék síðast með íslenska landsliðinu á Norðurlandamótinu í Rykkinn í Noregi í maí 2012 en þá voru höfðu einnig liðið næstum því fjögur ár frá síðasta landsliðsverkefni hennar sem var Norðurlandamót í Gentofte í Danmörku í ágúst 2008. Ekkert landslið var starfrækt á árunumm 2010 og 2011 en Margrét Kara var ekki með landsliðinu í Evrópuleikjunum haustið 2008 og haustið 2009. 

Margrét varð sjötti stigahæsti leikmaður íslenska liðsins á NM í Rykkinn 2012 og það var aðeins Helena Sverrisdóttir sem tók fleiri fráköst en Kara í fjórum leikjum Íslands á mótinu. Fjórir leikmenn landsliðsins í dag voru með Margréti Köru í síðasta landsleik hennar í lok maí 2012 en það voru þær Helena Sverrisdóttir, Pálína Gunnlaugsdóttir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Gunnhildur Gunnarsdóttir.

Margrét Kara lék síðast í Evrópukeppninni í september 2007 og hjálpaði þá íslenska landsliðinu að vinna Írland í Dublin. Það er því liðin langur tími síðan íslenska landsliðið mætti með Margréti Köru innanborðs í Evrópuleik. 

Leikmenn með flest virk landsliðsár á milli landsleikja

5 - Ólöf Helga Pálsdóttir (2004-2012)
4 - Stella Rún Kristjánsdóttir (2000-2005)
3 - Margrét Kara Sturludóttir (2012-2016)
3 - Jóhanna Björk Sveinsdóttir (2009-2015)
3 - Erla Reynisdóttir (2000-2004)
2 - Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir (2007-2012)
2 - Hanna Björg Kjartansdóttir (1997-2000)
2 - Kristín Blöndal (1991-1996)
2 - Kristjana B. Magnúsdóttir (1995-1998)
2 - María Jóhannesdóttir (1989-1993)
2 - Ragna Margrét Brynjarsdóttir (2009-2014)
2 - Stefanía Jónsdóttir (1989-1993)
2 - Svanhildur Káradóttir (1989-1993)
2 - Svava Ósk Stefánsdóttir (2004-2007)