19 júl. 2014Íslenska kvennalandsliðið varð að sætta sig við silfrið í Evrópukeppni Smáþjóða í Austurríki eftir sex stiga tap á móti heimastúlkum í Austurríki, 81-87. Íslenska liðið byrjaði leikinn vel en síðan fór allt í baklás og íslensku stelpurnar gáfu alltof mikið af auðveldum körfum sem reyndist liðinu dýrkeypt. Íslenska liðið réð líka ekkert við hina 18 ára gömlu Sigrid Koizar sem var með 32 stig, 10 stoðsendingar og 9 fráköst í þessum leik en hún hitti úr 69 prósent skota sinna. Helena Sverrisdóttir var atkvæðamest hjá íslenska liðinu með 18 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar en bæði Sigrún Ámundadóttir (14 stig og 10 fráköst) og Ragna Margrét Brynjarsdóttir (14 stig á 20 mínútum) komu sterkar inn af bekknum. Pálína Gunnlaugsdóttir (13 stig) og Hildur Sigurðardóttir (11 stig) voru einnig í hópi þeirra sem skoruðu yfir tíu stig í leiknum. Íslenska liðið komst í 15-4 og 18-6 í upphafi leiks en var engu að síður undir eftir fyrsta leikhlutann eftir að þær austurrísku enduðu hann á 18-4 spretti. Austurríki var þremur stigum yfir í hálfleik, 45-42, en lögðu grunn að sigrinum með því að vinna upphafskafla seinni hálfleiksins 17-5 og komast fimmtán stigum yfir. Ísland náði að minnka muninn í fjögur stig í fjórða leikhlutanum með góðri baráttu og vel heppnaðri svæðisvörn en nær komust þær ekki og austurríska liðið landaði sigrinum. Þetta er í annað skiptið í röð sem Austurríki vinnur Evrópukeppni Smáþjóða en liðið vann einnig þessa keppni fyrir tveimur árum. Ísland spilaði þarna sinn fjóða úrslitaleik og varð að sætta sig við silfrið í annað skiptið. Íslenska liðið byrjaði mótið á þremur öruggum sigrum en því miður kom slæmi leikurinn á úrslitastundu. Íslenska liðið lenti í miklum villuvandræðum eftir frábæra byrjun og missti við það dampinn. Heimastúlkur voru fljótar að nýta sér það og litu ekki til baka eftir það. Tölfræði íslenska liðsins: Helena Sverrisdóttir - 18 stig, 12 fráköst, 7 stoðsendingar Sigrún Sjöfn Ámundadóttir - 14 stig, 10 fráköst, 3 stoðsendingar Ragna Margrét Brynjarsdóttir - 14 stig Pálína Gunnlaugsdóttir - 13 stig Hildur Sigurðardóttir - 11 stig Hildur Björg Kjartansdóttir - 4 stig Bryndís Guðmundsdóttir - 3 stig Kristrún Sigurjónsdóttir - 2 stig Margrét Rósa Hálfdanardóttir - 2 stig Gunnhildur Gunnarsdóttir og María Ben Erlingsdóttir skoruðu ekki og Marín Laufey Davíðsdóttir kom ekkert inná.