18 maí 2004Um s.l. helgi var haldið árlegt þing FIBA Europe í Prag í Tékklandi. Á þinginu gerðu nefndir sambandsins grein fyrir störfum sínu og ákvörðunum á starfsárinu, og auk þess voru ýmis efnisatriði til umfjöllunar á þinginu. Mótahald hinna fjögurra keppna félagsliða, þ.m.t. FIBA Europe League, Euroleague keppni kvenna og FIBA Europe Cup kvenna og karla (sem Keflavíkurliðið tók þátt í) hefur gengið vel, og framundan er annasamt tímabil landsliða - sem Ísland fer ekki varhluta af. Fjárhagur FIBA Europe hefur batnað til muna, og er nú m.a. ráðstafað meira en einni milljón Evra til skipuleggjenda hinna ýmsu móta yngri landsliða í sumar. Meðal nýjunga sem FIBA Europe mun bjóða upp á í sumar er slysatrygging fyrir alla leikmenn í keppnum yngri landsliða - aðildarþjóðum að kostnaðarlausu. Ólafur Rafnsson og Snorri Sturluson sóttu þingið fyrir hönd KKÍ.