28 apr. 2004KKÍ hélt blaðamannafund í dag þar sem samningar við þrjú fyrirtæki voru kynntur. Fyrirtækin verða aðalstuðningsaðilar landsliðanna, sem verða á faraldsfæti í sumar. Fyrirtækin sem um ræðir eru Skeljungur, Icelandair og Safalinn, umboðsaðili Errea-íþróttafatnaðarins, en landslið Íslands munu áfram leika í fatnaði frá Errea eins og í fyrra. Þessir samningar eru KKÍ mikils virði og án þeirra hefði ekki verið hægt að halda úti því metnaðarfulla starfi sem rekið verður í sumar. Alls verða 6 landslið á vegum KKÍ sem æfa og keppa á hinum ýmsu mótum í sumar. Alls verða yfir 100 körfuknattleiksmenn og konur á landsliðsæfingum með hinum ýmsu landsliðum nú í sumar. Liðin munu alls leika 60 landsleiki sem er metfjöldi leikja sem leikinn hefur verið á vegum KKÍ á einu sumri. Ljóst er að enn fleiri leikir verða leiknir á næsta ári þegar öll yngri liðin munu taka þátt í Evrópukeppni landsliða. A-landslið karla mun leika alls 11 leiki í sumar til undirbúnings 3 leikjum í Evrópukeppninni eða 14 leiki alls. A-landslið kvenna mun leika alls 12 leiki í sumar U-18 karla mun leika 4 landsleiki á Norðurlandamóti í sumar. U-18 kvenna mun leika 4 landsleiki á Norðurlandamóti í sumar. U-16 karla mun leika 4 landsleiki á Norðurlandamóti í sumar og 9 landsleiki í Evrópukeppni. U-16 kvenna mun leika 4 landsleiki á Norðurlandamóti í sumar og 9 landsleiki í Evrópukeppni. Þjálfarar landsliðanna hafa valið æfingahópa og verða nöfn þeirra leikmanna sem valdir hafa verið birt hér á vefnum á morgun.