13 ágú. 2000Eftir frækilegan sigur á Dönum í gær virðist sem spennufall hafi orðið hjá íslenska kvennalandsliðinu. Þær mættu Noregi í dag og lentu fljótlega tíu stigum undir. Ísland náði þó að jafna áður en fyrsti leikhluti var úti og staðan í hálfleik var 33-30 Noregi í vil. Íslenska liðið var í hálfgerðum eltingaleik við það norska nánast allan leikinn eftir þessa slöku byrjun. Norska liðið spilaði hörkuvörn og til marks um það má nefna að Ísland tapaði 32 boltum í leiknum. Leikurinn var jafn lengst af í þriðja leikhluta en í lok hans tóku Norðmenn rispu og leiddu með níu stigum, 51-42, og eftir það var ekki aftur snúið. Þær komu of sterkar til leiks í fjórða leikhluta og fóru með 11 stiga sigur af hólmi; 69-58. Leikurinn í dag var langslakasti leikur Íslands á mótinu og ef að líkum lætur endar liðið í neðsta sæti á mótinu vegna innbyrðisviðureigna. Stigahæst í íslenska liðinu var Signý Hermannsdóttir, en hún skoraði 14 stig og tók að auki sjö fráköst. Erla Reynisdóttir og Lovísa Guðmundsdóttir voru með átta stig hvor.