8 apr. 2022

KKÍ stendur fyrir sex þjálfaranámskeiðum núna í vor og næsta haust. Tvö námskeið verða haldin í maí, KKÍ 1A og KKÍ 2A, en næsta haust verða KKÍ 1A, 1B, 1C og 2B haldin. Gott er að hafa í huga að þeir þjálfarar sem hyggjast sækjast eftir því að fara í FECC þurfa hið minnsta að hafa klára þjálfarastig KKÍ 1 og 2 ásamt ÍSÍ 1 og 2.

 

Opnað hefur verið fyrir skráningu á KKÍ 1A og KKÍ 2A, en vakin er athygli á því að aðeins þeir sem hafa greitt fyrir námskeið fá að taka þátt. Við bendum á að hægt er að sækja styrki fyrir þjálfaranámskeiðum, en oft veita stéttarfélög styrki fyrir þátttöku á námskeiðum. Frekari upplýsingar um námskeiðin eru veittar á skrifstofu KKÍ.

 

20.-22. maí | KKÍ 1A

Þjálfaranámskeið KKÍ 1A verður haldið dagana 20.-22. maí. Námskeiðið er 20 kennslustunda staðnámskeið, eða alls 13,5 klukkutímar. Áhersla er lögð á þjálfun minnibolta, byrjenda og barna 12 ára og yngri. Mikil áhersla er lögð á kennslu á helstu grunnþáttum eins og skotum, sendingum, fótavinnu, knattraki og á boltaæfingar. Áhersla er lögð á að kenna yngstu iðkendum grunnþætti í gegnum leiki. KKÍ þjálfari 1A gildir sem 25% af lokaeinkunn á námskeiðinu. Þjálfarar sem hafa lokið 1A eru með leyfi til að þjálfa minnibolta 9 ára og yngri.

 

Námskeiðsgjald er kr. 25.000 ef skráð er og greitt í síðasta lagi 13. maí, eftir það hækkar námskeiðsgjald upp í kr. 35.000.

 

27.-29. maí | KKÍ 2A

Þjálfaranámskeið KKÍ 2A verður haldið helgina 27.-29. maí. Að þessu sinni er það prófessor Nenad Trunic sem verður aðalfyrirlesari. Trunic hefur áður komið til Íslands til að halda þjálfaranámskeið og gerði það við góðan róm. Námskeiðið verður snýr að þessu sinni um þróun ungra leikmanna og hvernig við þróum framtíðarleikmanninn. Trunic hefur lengi starfað sem þjálfari yngri landsliða Serbíu og á síðasta ári tók hann við starfi sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Serbíu. Hann býr yfir mikilli þekkingu á þróun leikmanna og mun miðla henni með áhugasömum þjálfurum í lok maí.

 

Ásamt Trunic verða þeir Finnur Freyr Stefánsson, yfirþjálfari yngri landsliða og þjálfari karlaliðs Vals og Lárus Jónsson þjálfari karlaliðs Þórs Þ. fyrirlesarar, og mögulega gætu fleiri bæst í hóp fyrirlesara

 

Námskeiðið er 20 kennslustunda staðnámskeið, eða alls 13,5 klukkutímar, námskeiðið verður einnig hægt að nýta sem endurmenntunarnámskeið fyrir þá þjálfara sem hafa lokið KKÍ 3. Námskeiðið er opið fyrir þá þjálfara sem eru ekki að sækja sér stig hjá KKÍ. Allir þeir sem sækja námskeiðið og ætla sér að sækja stig 2A þurfa að standast próf í lok námskeiðs.

 

Námskeiðsgjald er kr. 35.000 ef skráð er og greitt í síðasta lagi 20. maí, eftir það hækkar námskeiðsgjald upp í kr. 45.000.

 

Þjálfaranámskeið haust 2022

20.-22. ágúst | KKÍ 1A

28.-29. ágúst | KKÍ 1C

12. september | KKÍ 1B og KKÍ 2B (fjarnámskeið)