18 feb. 2021Í dag er komið að fyrri leik Íslands í febrúarglugganum í forkeppninni að undankeppni HM2023. Leikið er í Pristhina í Kosovó þar sem liðin fjögur í riðlinum, Ísland, Slóvakía, Kosovó og Lúxemborg eru öll saman komin og leika tvo leiki hvert gegn hvert öðru. Á laugardaginn leika strákarnir okkar lokaleikinn sinn gegn Lúxemborg.

Liðið hefur dvalið í góðu yfirlæti og æft vel síðustu daga. Mikil tilhlökkun er meðal leikmannanna að spila í dag og eru menn staðráðnir í að sækja sigur. Ísland er sem stendur efst í riðlinum en einn sigur myndi gulltryggja sæti í annari umferð sem fram fer fram í ágúst. Þá munu liðin sem leika yfir helgina í undankeppni EuroBasket 2022 og verða neðst í sínum riðlum koma inn í aðra umferðina og leika um að komast áfram í undankeppni HM sem hefst í haust.

Craig Pedersen hefur valið þá 12 leikmenn sem leika í dag gegn Slóvakíu en Ísland er með 13 leikmenn til taks í Kosovó. Ragnar Ágúst Nathanaelsson verður í leikmannahópnum og Hjálmar Stefánsson mun hvíla í dag. Ragnar Ágúst leikur sinn 50. landsleik í dag gegn Slóvakíu.

Leikskrá leiksins í dag: SLÓVAKÍA-ÍSLAND

Liðsskipan Íslands:
Elvar Már Friðriksson · BC Siauliai, Litháen (48)
Gunnar Ólafsson · Stjarnan (22)
Hörður Axel Vilhjálmsson · Keflavík (86)
Jón Axel Guðmundsson · Fraport Skyliners, Þýskalandi (13)
Kári Jónsson · Girona Basket, Spánn (14)
Kristinn Pálsson · Grindavík (15)
Ólafur Ólafsson · Grindavík (38)
Ragnar Ágúst Nathanaelsson · Haukar (49)
Sigtryggur Arnar Björnsson · Real Canoe, Spánn (12)
Styrmir Snær Þrastarson · Þór Þorlákshöfn (Nýliði)
Tómas Hilmarsson · Stjarnan (8)
Tryggvi Snær Hlinason · Basket Zaragoza, Spánn (41)