11 jan. 2021

Mótanefnd og stjórn KKÍ hafa samþykkt það fyrirkomulag mótahalds sem unnið verður út frá á vordögum.

Reglugerð heilbrigðisráðherra sem gefin var út föstudaginn 8. janúar sl. opnaði á æfingar allra aldursflokka sem og keppni, að undangengnum ákveðnum skilyrðum. Þetta er mikið fagnaðarefni, en á sama tíma fylgir þessu mikil ábyrgð. Núverandi takmarkanir gilda til og með 17. febrúar 2021. Mótanefnd hefur ákveðið hvernig haga skuli keppni neðri deilda í framhaldinu.
 
Sérstök athygli er vakin á því að áhorfendabann gildir í keppni allra flokka og deilda. Félög eru því hvött til að senda út alla leiki í gegnum Facebook, Youtube eða aðra miðla. Hverju liði yngri flokka og neðri deilda má fylgja einn þjálfari og einn liðsstjóri, auk þeirra leikmanna sem leika hverju sinni.

YNGRI FLOKKAR

Breytingar á skráningu
Opnað verður fyrir breytingu á skráningu í öllum flokkum öðrum en minnibolta. Þetta er gert til að félög geti bætt við eða fækkað skráðum liðum, allt eftir stöðu á hverjum stað fyrir sig. Engar sektir eða önnur gjöld önnur en þátttökugjöld verða tekin af breytingu á skráningum.

Deildarkeppni
Í allri deildarkeppni yngri flokka verður horft til þess að leika að jafnaði 3 leiki í mánuði. Öll lið klára keppni með jafn marga leiki, og þar sem lið hafa leikið mismarga leiki í september, þá spila þau lið sem hafa leikið færri leiki oftar í vor.
 
Deildarkeppni yngri flokka lýkur í apríl, en úrslitakeppni og úrslit verða leikin í maí.

Bikarkeppni yngri flokka
Bikarkeppni yngri flokka verður ekki leikin þetta tímabilið.

Fjölliða- og fjölvallamót
Ekki verður horft til að keppa þessi mót nema til frekari afléttinga komi af hálfu yfirvalda, en núverandi ráðstafanir gilda til og með 17. febrúar.

Drengja-, stúlkna- og unglingaflokkur
Æfingar þessara flokka geta hafist 13. janúar. Nauðsynlegt verður að gefa öllum tækifæri á að æfa áður en keppni hefst, en þriðjudagurinn 2. febrúar er þá fyrsti mögulegi leikdagur.
            Drengjaflokkur – leiknir verða samtals 10 leikir í deild.
            Stúlknaflokkur – leiknir verða samtals 10 leikir í deild.
            Unglingaflokkur – leiknir verða samtals 10 leikir í deild.
 
Opið verður fyrir breytingar á skráningu til miðnættis 21. janúar.

10. flokkur
Opið verður fyrir breytingar á skráningu til miðnættis 13. janúar. Fyrsti leikdagur er 18. janúar.
 
Leiknir verða samtals 10 leikir í deild.

9. flokkur
Keppni 9. flokks færist í deildarkeppni, rétt eins og þekkist með eldri yngri flokka. Leiknir verða samtals 8 leikir í deildarkeppni.
 
Opið verður fyrir breytingar á skráningu til miðnættis 13. janúar. Fyrsti leikdagur er 20. janúar.

7. og 8. flokkur
Keppni 7. og 8. flokka verður áfram í fjölliðamótsfyrirkomulagi, en þó þannig að ekki verður keppt strax í fjölliðamótum. Stefnt er að því að fara af stað með svæðamót, þar sem kepptir verða stakir leikir en þó þannig að reynt verður að halda keppninni innan landssvæða eins og kostur er. Þar sem það er ekki mögulegt munum við finna lausnir til að tryggja að þessir iðkendur fái tækifæri til keppni til jafns við aðra.
 
Leikjafjöldi ræðst af miklu leyti af því hvort verðandi samkomutakmarkanir verði léttar nægilega til að leika fjölliðamót.

Minnibolti
Ekki verður keppt í fjölliðamóts- eða fjölvallamótsfyrirkomulagi fyrst um sinn. Ekki verður sett á sérstök keppni í minnibolta strax, en lið eru sérstaklega hvött til að leika æfingaleiki.
 
Leikjafjöldi ræðst af miklu leyti af því hvort verðandi samkomutakmarkanir verði léttar nægilega til að leika fjölvalla- eða fjölliðamót.

NEÐRI DEILDIR

Bikarkeppni
Lið í neðri deildum taka ekki þátt í bikarkeppni þetta tímabilið, þar sem breyta hefur þurft fyrirkomulagi bikarkeppninnar til að koma henni fyrir.

2. deild karla
Keppni hefst 12. febrúar og er fyrirhugað að klára fyrri umferð deildarkeppninnar. Þau lið sem hafa leikið tvo leiki eiga 9 leiki eftir, en þau lið sem hafa einungis náð einum leik eiga 10 leiki eftir. Deildarkeppni skal ljúka fyrir apríl lok, en í maí verður leiki úrslitakeppni milli A liða þar sem það þarf einn leik til að komast áfram. Aðeins A liðin komast í úrslitakeppnina, þannig að þau A lið sem röðuð eru númer 3 og 6 annars vegar og 4 og 5 hins vegar mætast í leik um að komast í undanúrslit.

Það lið sem vinnur úrslitakeppnina vinnur sér sæti í 1. deild karla.
 
Tvö efstu B lið 2. deildar karla munu leika úrslitaleik sín á milli.

3. deild karla
Keppni hefst 12. febrúar og er fyrirhugað að leika fyrri umferðina, samtals fimm leiki, en lið Hamars b hefur dregið sig úr keppni. Ekki verður leikin úrslitakeppni í 3. deild karla þetta tímabilið.