Mótahald KKÍ hefur vaxið hröðum skrefum síðustu ár, en það endurspeglar góða og vaxandi stöðu körfuknattleiksíþróttarinnar hér á landi ásamt því öfluga starfi sem aðildarfélög KKÍ, hringinn um landið, standa fyrir. Þessi samantekt birtist í stuttri skýrslu mótanefndar um stöðu mótamála, en hana má nálgast hér.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um Domino‘s deildir karla og kvenna, sem hafa fengið verðskuldaða athygli í fjölmiðlum og þá sérstaklega með aukinni umfjöllun fjölmiðla almennt, sem og fjölgun beinna útsendinga Stöðvar 2 á deildar- og úrslitakeppni deildanna.

Aukin umfjöllun hefur sett körfuboltann í brennidepil íþróttanna, rétt eins og gerðist þegar NBA æðið stóð sem hæst á 10. áratug síðustu aldar. Í NBA æðinu varð gríðarlegur vöxtur í fjölda þátttökuliða, sérstaklega drengjamegin. Sama vöxt höfum við séð frá 2014/2015 tímabilinu, en á þeim tíma gerðist tvennt - Ísland komst eftirminnilega á EM í fyrst sinn og breytingar til heilla voru gerðar á keppnisfyrirkomulagi minnibolta. Ekki verður lesið annað í stöðuna en að árangur karlalandsliðsins og breytingarnar á keppnisfyrirkomulagi minnibolta hafi skilað talsverðri fjölgun þátttökuliða.

Öll tölfræði sem á eftir fylgir er unnin upp úr mótakerfi KKÍ. Ekki er til næg tölfræði til samanburðar með stúlknaflokka aftar en til 1995/1996 tímabilsins.


Meistaraflokkur karla
Þátttaka í meistaraflokkum karla náði hámarki upp úr aldamótum, en hefur því miður minnkað síðan. Stofnun 4. deildar karla er liður í því að vinna gegn fækkun liða, og þar með fækkun fullorðinna sem iðka körfubolta innan hreyfingarinnar. Mikill áhugi virðist vera fyrir þátttöku í 4. deildinni á komandi leiktíð, en hver fjöldi liða verður þarf að koma í ljós þegar skráning liggur fyrir.
 
Í 1. deild karla verða loksins aftur 10 lið í deildinni, en það hefur ekki gerst síðan 2015/2016 tímabilið. Að beiðni félaganna sem skipa 1. deild karla verður leikin tvöföld umferð, 18 leikir á lið, á komandi leiktíð. Ekkert félag féll úr 1. deild karla á síðustu leiktíð, en Fjölnir kom niður úr Domino‘s deild karla og Hrunamenn tóku sæti í deildinni.
 
Í 2. deild karla verða 11 lið í deildinni, en þar verður leikin tvöföld umferð, alls 20 leikir á lið.
 
Í 3. deild karla verða 7 lið í deildinni, en þar er fastur leikjafjöldi 12 leikir á lið. Þetta er fámennasta 3. deild karla frá stofnun hennar.


Meistaraflokkur kvenna
Þátttaka í meistaraflokkum kvenna er að ná hámarki með hverju árinu sem líður, eða því sem næst. Í Domino‘s og 1. deild kvenna verða 17 lið í vetur, en aðeins einu sinni áður hafa jafn mörg lið skráð sig í deildarkeppni kvenna. Miklar vonir eru einnig bundnar við þátttöku í 2. deild kvenna, sem var sú stærsta frá upphafi á síðustu leiktíð þegar 13 lið skráðu sig til leiks. Keppnisfyrirkomulag 2. deildar var einfaldað til að auðvelda sem flestum þátttöku í deildinni og virðist áhuginn vera heldur meiri en fyrir síðustu leiktíð.
 
Í 1. deild kvenna leika 9 lið á komandi leiktíð, alls 24 leiki á lið. Þrjú félög bættust við, en Ármann og Stjarnan skráðu sig aftur til leiks og Vestri skráir meistaraflokk kvenna til leiks í fyrsta sinn.


Yngri flokkar
Þátttaka í yngri flokkum drengja og karla hefur aukist ár frá ári. Talsverð aukning hefur verið frá 2015/2016 tímabilinu, en vorið 2015 samþykkti körfuknattleiksþing breytingar á keppnisfyrirkomulagi minnibolta. Það var fyrirséð að liðum myndi fjölga umtalsvert í minnibolta, enda gerðu breytingar á fyrirkomulaginu ráð fyrir því. Hins vegar er það ánægjulegt aðfjölgun liða í 7. flokki og eldri hefur verið umtalsverð og meiri en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir.


Talsverð fjölgun þátttökuliða 7.-9. flokks stúlkna hefur orðið frá aldamótum, en nokkrar breytingar voru gerðar á keppnisfyrirkomulagi stúlknaflokka árið 2000. Það má ekki gleyma því að kvennakörfubolti er frekar ung íþrótt á Íslandi og hefur tekið tíma að ná fótfestu. Heldur hafa raðirnar þést síðustu árin og miðað við aukna þátttöku í yngri flokkum stúlkna má búast við enn meiri samkeppni í Domino's og 1. deildum kvenna á næstu árum.


Breytingar á keppnisfyrirkomulagi minnibolta hafa einnig haft mjög jákvæð áhrif á þátttöku í 7.-9. flokki stúlkna, en áfram má búast við vexti á þessu aldursbili.

Fyrsti árgangurinn sem keppti samkvæmt breyttu fyrirkomulagi minniboltans kemur nú upp í drengja- og stúlknaflokk. Áhrifin á drengjaflokk verða að teljast meiri, þar sem drengjaflokkur á komandi leiktímabili er sá fjölmennasti sem sögur fara af, en þar munu 26 lið etja kappi í þremur deildum. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni þar sem keppt verður í þremur deildum í deildarkeppni yngri flokka, en liðafjöldi í deildarkeppni yngri flokka hefur aldrei áður verið meiri.

Í 10. flokki drengja verður einnig keppt í þremur deildum, en 24 lið skráðu sig til leiks þar.


Í stúlknaflokki skráðu 13 lið sig til leiks, jafn mörg og á síðustu leiktíð. Þetta er mesti fjöldi liða í stúlknaflokki í sögunni. Í 10. flokki stúlkna skráðu 11 lið sig til leiks, en það er einu færra en á síðustu leiktíð. 10. flokkur stúlkna hefur vaxið nokkuð síðustu ár og virðist vera að ná meiri fjölda en oftast áður. Miðað við skráningu í yngri stúlknaflokka standa væntingar til stærri keppni í 10. flokki stúlkna og stúlknaflokki á komandi árum.


Drengjamegin eru áhrif NBA æðis 10. áratugar síðustu aldar mjög greinileg, en þátttaka í mótahaldi KKÍ snarjókst á fjögurra ára tímabili frá 1991/1992 tímabilinu til 1995/1996 tímabilsins. Heldur dró úr þátttöku upp úr aldamótum, en þátttaka í deildarkeppni yngri flokka hefur aukist aftur og miðað við þátttöku í 7.-9. flokki má búast við áframhaldandi fjölgun leikja og liða í deildarkeppni yngri flokka á næstu árum.

Ein stærsta breyting á keppnishaldi yngri flokka stúlkna átti sér stað á körfuknattleiksþingi árið 2000 á Akureyri. Fram að þeim tíma hafði verið leikið í minnibolta 11 ára, 8. flokki og 10. flokki stúlkna, en á þinginu var 7. og 9. flokki bætt við mótahaldið. Greinileg og nauðsynleg fjölgun varð við þessa breytingu, en þátttökulið í 8. flokki stúlkna tímabilið 1999/2000 voru einungis átta. Á síðustu leiktíð voru 42 þátttökulið í 7.-9. flokki stúlkna, en fjölgun þátttökuliða á þessu aldursbili hefur verið rúmlega fimmfaldast frá aldamótum. Áfram þarf þó að huga að keppnisumhverfi yngri flokka til að auðvelda fleiri félögum að taka þátt á þessu aldursbili. Nokkrar breytingar hafa vissulega verið gerðar frá aldamótum til að einfalda og bæta keppnisumhverfið, en ekki má láta staðar numið í þeim efnum.


Leikjafjöldi
Leikjafjöldi í mótahaldi KKÍ hefur aukist umtalsvert frá tímabilinu 2009/2010. Hefði síðasta leiktímabil klárast eins og áætlað var, hefði leikjafjöldi farið hátt í 4.200 leiki. Á komandi tímabili er áætlað að leikjafjöldi verði rúmir 4.400 leikir.
 
Deildar- og bikarleikir eru um þriðjungur af leikjafjölda keppnistímabilsins, en leikir í fjölliðamótum eru um 2/3 af leikjafjölda.


Samantekt
Það er öllum ljóst að mótahald KKÍ hefur vaxið hröðum skrefum á skömmum tíma. Innan stjórnar og skrifstofu KKÍ er stöðugt verið að leita leiða til að styðja við áframhaldandi vöxt mótahaldsins. Blómlegt og stöndugt mótahald er ein helsta stoð öflugs sérsambands og ber jafnframt fagurt vitni um gott og faglegt starf aðildarfélaga KKÍ.

Það er ljóst að svona umfangsmikið starf er ekki bara unnið á skrifstofu KKÍ, heldur koma ótal hendur að mótahaldinu, hvort sem nefna skal leikmenn, þjálfara, dómara, starfsmenn á ritaraborði, starfsmenn íþróttahúsa, áhorfendur og fleiri sjálfboðaliða innan félaganna. Ótal hendur sjálfboðaliða styðja við þetta öfluga grasrótarstarf sem mótahaldið er og þeim sem leggja hönd á plóg verður seint fullþakkað.

Stærsta verkefni mótahaldsins á komandi misserum er keppnisumhverfi eldri yngri flokka, en stjórn KKÍ setti á stofn nefnd sem fjalla á um það málefni, rýna það og koma með lausnir til úrbóta.

Áfram körfubolti!