Fyrir keppnistímabilið í körfuknattleik 1975-6 var í fyrsta sinn leyfilegt að nota einn erlendan leikmann í hverju liði en eftir keppnistímabilið 1982-3 var ákveðið að banna erlendum leikmönnum að spila hér á landi. Það bann stóð til haustsins 1989 en þá var það aftur afnumið og við það situr enn í dag. Langflestir leikmennirnir hafa verið bandaríkjamenn en þó hefur hingað slæðst einn og einn frá öðrum löndum. Til að meta áhrif erlendra leikmanna á íslenskan körfuknattleik leitaði DV álits þeirra Gunnars Þorvarðarsonar, Jóns Sigurðssonar og Torfa Magnússonar, sem allir eru margreyndir landsliðsmenn og eiga að baki gifturíkan feril bæði sem leikmenn og þjálfarar. Þá voru þeir einnig beðnir um að segja álit sitt á því hver væri besti erlendi leikmaðurinn sem hingað hefði komið. Gunnar Þorvarðarson: Í upphafi höfðu þessir leikmenn miklu meiri áhrif á íþróttina en þeir hafa í dag, enda voru þeir, sem komu hingað fyrstu árin, miklu betri en bestu íslensku leikmennirnir og höfðu þar af leiðandi afgerandi áhrif á hvernig liðunum vegnaði. Þeir trekktu að áhorfendur og áhorfendur fengu þá í fyrsta sinn að berja augum leikmenn sem gátu troðið með tilþrifum og voru geysilega flinkir með boltann. Margir af þessum strákum sem komu hingað voru í augum okkar íslensku leikmannanna algjörir galdramenn, ég tala nú ekki um í augum áhorfendanna. Fyrstu árin lyftu þessir leikmenn íslenskum körfubolta á hærra plan og juku áhuga fyrir honum og margt annað jákvætt fylgdi þeim í kjölfarið. Í dag er staðan gjörólík því sem hún var fyrir aldarfjórðungi. Sem betur fer hefur getu íslenskra leikmanna fleygt mikið fram og þar spila margir þættir inní, eins og til dæmis bætt aðstaða til æfinga og leikja, meiri og betri menntun þjálfara og ekki síst það að krakkar byrja að æfa mikið fyrr en áður var. Þetta hefur orðið til þess að bilið milli íslenskra og erlendra leikmanna hefur minnkað. Í dag er staðan þannig að erfitt er að fá hingað til lands leikmenn sem eru miklu betri en þeir íslensku nema fyrir fúlgur fjár, en því miður er fjárhagsleg geta íslensku liðanna þannig að þau fá ekki hingað neina klassaleikmenn vegna þess að þau borga þeim lág laun miðað við önnur lönd en erlendir leikmenn kosta félögin núna í kringum tvær milljónir á keppnistímabili séu þau heppin. Ég er hreint ekki viss um að þeir leikmenn sem hingað fást dragi að fleiri áhorfendur eða bæti á einhvern hátt stöðu íþróttarinnar. Það væri því alveg sársaukalaust af minni hálfu þótt erlendum leikmönnum yrði bannað að spila hér í tvö til þrjú ár og peningarnir yrðu í staðinn nýttir í eitthvað annað, en það er harla ólíklegt að svo fari og er það vegna Bosmansmálsins svokallaða. Íslensku liðin myndu sennilega freistast til að fá hingað leikmenn frá evrópska efnahagssvæðinu í staðinn og ég veit ekki hvort það væri eitthvað betra. Í mínum huga er Danny Shouse, Njarðvík, besti leikmaðurinn sem spilað hefur hér á landi en hann var afburða leikmaður og gjörsamlega óstöðvandi. Þá nefni ég Dirk Dunbar, ÍS, Petey Sessoms, Njarðvík, Darryll Wilson Grindavík og Damon Johnson sem lék með Keflavík og ÍA, svo að einhverjir fleiri séu nefndir. Torfi Magnússon: Þegar fyrstu útlendingarnir komu hingað hafði verið stöðnun í íslenskum körfuknattleik í mörg ár þar sem ÍR og KR deildu með sér titlunum. Koma útlendinganna lyfti körfuboltanum á hærra plan og jók í beinu framhaldi áhuga og umfjöllun um íþróttina. Þessir menn komu með nýjar víddir, þeir voru allir mjög góðir og gátu miðlað okkur miklu. Áhrif fyrstu útlendinganna á leikmenn voru því mjög góð og mikil, en sérstaklega mikil á þá sem voru að þjálfa. Fram að þessu hafði þjálfun yfirhöfuð ekki verið upp á marga fiska hér, en margir sem nutu leiðsagnar þessara erlendu manna urðu seinna meir góðir þjálfarar. Aðalástæðan fyrir því að áhrifin urðu svona góð og mikil var sú að þessir leikmenn voru mjög vel valdir, - til dæmis fóru þrír menn héðan til Bandaríkjanna áður en þeir fyrstu komu til að skoða og velja leikmenn í æfingabúðum fyrir liðin hér. Í seinni tíð hefur alls ekki verið vandað nógu vel til verka varðandi val á leikmönnum og það er slæmt fyrir íþróttina. Af einhverjum orsökum var bannað að nota erlenda leikmenn árið 1983 og fannst mér það vafasöm ákvörðun. Það hefur oft verið um það talað að þeir peningar sem félögin safna til að borga þessum leikmönnum eigi frekar að fara í starf fyrir yngri flokka eða eitthvað þvíumlíkt. Staðreyndin er hins vegar sú að þótt erlendum leikmönnum sé bannað að leika hér þá er þessum peningum ekkert safnað til afnota fyrir starf í þágu yngri flokka, það er bara misskilningur. Miklu skiptir að leikmanninum líði vel hér, enda var það svo í gamla daga, þegar þetta var að byrja, að þá var tekið á móti þessum strákum eins og einum úr fjölskyldunni og samskipti við þá voru náin og persónuleg. Margir af þeim sem spiluðu hér fyrir 20-25 árum eiga enn góða vini hér á landi og það segir meira en mörg orð. Í dag er þetta orðið miklu ópersónulegra og útlendingarnir halda sig mikið saman í hópum og hafa ekki eins mikil samskipti við íslensku leikmennina eins og áður. Þetta stafar af því að liðunum hefur fjölgað og þar af leiðandi koma fleiri leikmenn hingað og einnig vegna lélegs vals eins og áður er vikið að. En til þess að íslenskir leikmenn bæti sig verða þeir að keppa og æfa með mönnum sem eru betri en þeir. Það er erfitt að velja einhvern einn sem þann besta og ég lít helst til leikmanna sem skilað hafa mestu fyrir félögin, eins og Ronday Robinson hjá Njarðvík, sem átti stóran þátt í mörgum titlum, og Jonathan Bow, sem hefur orðið íslandsmeistari með tveimur liðum. Þá voru þeir Danny Shouse, Njarðvík og Tim Dwyer Val frábærir; þeir skiluðu miklu fyrir heildina og það skiptir mestu máli þegar upp er staðið Jón Sigurðsson: Koma erlendu leikmannanna hafði mikil og góð áhrif á körfuboltann í heild sinni og áhugi, aðsókn og umfjöllun jukust til muna. Þetta var í raun mikil vítamínsprauta fyrir allt félagsstarf tengt körfunni og sérstaklega gagnvart yngri flokka starfi því að fleiri krakkar fóru að æfa og öll uppbygging varð auðveldari, enda er það svo að með auknum áhuga kemur aukið fjármagn og framfarir fylgja í kjölfarið. Að sjálfsögðu efldi þetta okkur leikmennina í meistaraflokki því að þessir leikmenn komu með margt nýtt og í raun nýjar víddir inn í íþróttina. Ég vil meina það að þessi fyrstu ár hafi körfuboltinn tekið sitt stærsta skref upp á við frá byrjun, en hápunkti þess tímabils var sennilega náð 1979 þegar KR og Valur léku hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn fyrir fullri Laugardalshöll og hafa aldrei komið jafn margir áhorfendur á körfuboltaleik. En þetta fór fljótlega að dala, enda fóru erlendu leikmennirnir að rotta sig saman varðandi kaup og kjör og launagreiðslur fóru að mínu mati út í tóma vitleysu. Síðan tók við bann við erlendum leikmönnum í nokkur ár og ákveðinn stöðugleiki náðist en einnig fóru lið úti á landi að láta meira að sér kveða og var það hið besta mál. Eftir að ákveðið var að leyfa erlendum leikmönnum að spila að nýju hér á landi jukust vinsældir körfuboltans mikið, en nú hélst það í hendur við gífurlegar vinsældir NBA- deildarinnar bandarísku. Markaðsvél hennar teygði anga sína út um allan heim og það komst í tísku að spila körfubolta. Þetta seinna tímabil byrjaði mjög skemmtilega og mikill áhugi og kraftur var samfara því, en það var líkt með þetta og fyrra tímabilið að senn tók að halla tók undan fæti og held ég að aðalástæðan fyrir því hafi verið slæmt val á leikmönnum. Þegar lið þurfa að flytja inn marga leikmenn á einu keppnistímabili bitnar það á félaginu í heild, ekki bara meistaraflokki, því að þessir litlu peningar sem félögin hafa handa á milli verða að nýtast vel. Eins og staðan er í dag þurfa félögin að taka sig á og vanda val erlendra leikmanna betur því að góðir og traustir erlendir leikmenn með jákvæðan persónuleika hafa góð og hvetjandi áhrif á íþróttina í heild. Ég hef lengi sagt það og segi það enn að Jimmy Rogers, sem spilaði með Ármanni, er besti erlendi leikmaðurinn sem hingað hefur komið, frábær leikmaður sem smitaði út frá sér og skilaði miklu, en hann var einnig fyrsti erlendi leikmaðurinn sem hingað kom. Þá nefni ég einnig tvo ágæta leikmenn sem báðir voru með KR og unnu titla, þá John Hudson og Keith Vassell. Greinin birtist í helgarblaði DV 23. september 2000.