Reglugerð fyrir mótanefnd

1. 
Stjórn KKÍ skipar þrjá menn í mótanefnd til tveggja ára. Formann nefndarinnar skal skipa sérstaklega.
 
2. 
Mótanefnd skal í samræmi við gildandi reglur hafa á hendi yfirstjórn og eftirlit með framkvæmd allra leikja á vegum KKÍ.
 
3. 
Verkefni mótanefndar er:

a) að gera tillögur að deildarskipulagi.
b) að gera tillögur að leikjafyrirkomulagi í samráði við félög. 
c) að taka ákvörðun um frestun og niðurfellingu leikja.
d) að skoða og samþykkja leikvelli og gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur.
e) að banna notkun leikvalla, ef nauðsyn krefur.
f) að samræma keppnisdaga, svo íþróttaviðburðir falli eigi saman að nauðsynjalausu.
g) að gera tillögu að leikjaniðurröðun til stjórnar KKÍ. Stjórn KKÍ sér um útgáfu leikjaniðurröðun og innheimtu þátttökugjalda.
h) að gera tillögu að mótafyrirkomulagi til stjórnar KKÍ ef ljóst er að mótahald verði ekki með þeim hætti sem tilgreint er í reglugerð um körfuknattleiksmót.
 
4. 
Mótanefnd auglýsir eftir þátttökutilkynningum fyrir Íslandsmót, Bikarkeppni KKÍ og Fyrirtækjabikar. Mótanefnd auglýsir fyrir 1. ágúst helgar sem halda má minniboltamót. Félög geta sótt um að halda slík mót á auglýstum helgum. Auglýsi félag slíkt mót án leyfis mótanefndar skal félagið sektað um upphæð sem stjórn KKÍ ákveður á hverju vori.
 
5. 
Þátttökutilkynningum til Íslandsmóts, Bikarkeppni og Fyrirtækjabikars skal skila til mótanefndar á tilsettum tíma í samræmi við reglugerð um körfuknattleiksmót. Mótanefnd er heimilt að hafna umsóknum sem ekki berast fyrir tilsettan tíma.

Þátttökutilkynningar skulu vera á því formi sem mótanefnd KKÍ óskar hverju sinni og skal það vera ljóst fyrir 1. júní ár hvert. Sama gildir um sérstakar óskir sem félögin vilja koma á framfæri. Mótanefnd sendir út uppkast að leikjaniðurröðun fyrir 20. ágúst. Félög hafa frest til 1. september til að skila athugasemdum.

Mótanefnd skilar stjórn KKÍ endanlegri tillögu að leikjaskrá fyrir 20. september.
 
6. 
Boða þarf til leiks með sannanlegum hætti, með minnst viku fyrirvara. Mótanefnd er skylt að tilkynna breytingar á leikjaniðurröðun með sannanlegum hætti. Ef gera þarf breytingu á leikjaniðurröðun, þá skal hún gerð með að minnsta kosti viku fyrirvara.
 
7. 
Félög skulu tilnefna forsvarsmann, samstarfsmann til að annast samskipti við mótanefnd.
Félögin skulu tilkynna mótanefnd nöfn, heimilisföng, netföng, heimasíma, gsm síma og vinnusíma samstarfsmanna sinna. Það er á ábyrgð félaga að réttar upplýsingar séu á skrá hjá KKÍ.
 
8. 
Mótanefnd eða fulltrúi hennar skal hafa fasta viðtalstíma á skrifstofu KKÍ á meðan keppnistímabil stendur yfir.
 
9. 
Mótanefnd hefur heimild til í samvinnu við dómaranefnd skipa eftirlitsmann á alla leiki á vegum KKÍ sem gefur umsögn um framkvæmd leiks og dómgæslu.
 
10. 
Mótanefnd skilar skýrslu um starfsemi sína til stjórnar KKÍ þremur vikum fyrir körfuknattleiksþing.

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira