28 okt. 2020Nú í september gerðu KKÍ og Bílaleiga Akureyrar með sér samstarfssamning til tveggja ára. KKÍ fær bíla til afnota hjá bílaleigunni fyrir starfsemi sambandsins. Hannes S. Jónsson formaður KKÍ og Bergþór Karlsson framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar undirrituðu samninginn í húsakynnum Bílaleigu Akureyrar í lok september.

Hannes S. Jónsson formaður KKÍ: „Það er okkur hjá KKÍ afar mikilvægt að hafa góða samstarfsaðila með okkur og það er sérlega ánægjulegt að á þessum sérstöku tímum sem við lifum núna að fyrirtæki eins og Bílaleiga Akureyrar sjái hag sinn í því að styða við bakið á KKÍ með þessum myndarlega hætti. Bílaleiga Akureyrar er eitt af þeim fyrirtækjum sem er þekkt fyrir öflugt samstarf við íþróttahreyfinguna undanfarna áratugi og hlökkum við til að vinna með því öfluga fólki sem starfar hjá Bílaleigu Akureyrar“.

Bergþór Karlsson framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar: „Það er okkur sönn ánægja að hefja samstarf við KKÍ. Við hjá Bílaleigu Akureyrar styðjum stolt við bakið á sérsamböndum og íþróttafélögum um land allt, við teljum það hluta af okkar samfélagslegu ábyrgð og leggjum metnað í að eiga í góðu samstarfi við okkar samstarfsaðila. Á sérstökum tímum sem þessum er því sérstaklega ánægjulegt að hefja þetta samstarf og styðja við bakið á öflugu starfi KKÍ“.