25 mar. 2020Þó allar æfingar liggi niðri, þá er full ástæða til að halda virkni og hreyfa sig daglega. KKÍ hefur verið að deila efni á samfélagsmiðlum sínum með æfingum, gömlum leikjum og öðru áhugaverðu efni sem bæði getur hjálpað til við að halda fólki á hreyfingu sem og að stytta því stundir við þær aðstæður sem uppi eru.

Fyrst ber að nefna Driplið, skemmtilegar æfingar sem börn, unglingar og fullorðnir geta gert heima við án þess að þurfa annað en smávægilegt rými og bolta. Æfingunum er skipt í erfiðleikastig - rauðan, bláan og hvítan. Í morgun birtum við svo upptöku af kennslumyndbandi sem KKÍ gaf út 1993, Meistaratöktum. Í myndbandinu fer Ingvar Jónsson yfir grunnatriði körfuboltans með nokkrum landsliðsmönnum og John Rhodes - sjón er sögu ríkari.

Við höfum líka fengið efni sent frá aðildarfélögum KKÍ, eins og þessa einstaklingsæfingu frá Jan Bezica sem þjálfar hjá Tindastól, nokkrar skemmtilegar útfærslur af boltaæfingum frá Árna Eggerti Harðarsyni og heimaæfingu frá ÍR sem Ísak Máni Wium yfirþjálfari yngri flokka hjá ÍR og aðstoðarþjálfari U15 drengja setti saman.

Einnig höfum við deilt upptökum af gömlum leikjum. Til dæmis upptaka af úrslitaleik Íslandsmótsins 1974 milli Ármanns og KR, sem okkur telst til að sé fyrsta beina íþróttaútsendingin þar sem notast var við þrjár upptökuvélar.
Svo er það skemmtileg upptaka af því þegar Júlíus Orri leikmaður Þórs Ak. spilaði 1á1 við NBA stjörnuna Jeremy Lin eftir að hafa hitt hann í ísbúð á Akureyri.

Mun meira efni mun birtast á miðlum KKÍ á næstu dögum og við viljum því hvetja alla til að fylgjast með.

Facebook
Instagram
Twitter