17 ágú. 2019

Það var góð stemning í Laugardalshöllinni í dag þegar íslenska karlalandsliðið vann stórsigur á Portúgal 96-68. Ísland leiddi með mest 35 stigum í fjórða leikhluta en nokkrar körfur frá gestunum á lokamínútunum minnkaði muninn.

Íslenska liðið lék af krafti frá byrjun leiks til loka og raunverulega áttu gestirnir aldrei möguleika á sigri í dag. Jón Axel Guðmundsson var stigahæstur hjá Íslandi en þrir leikmenn íslenska liðsins voru áberandi í stigaskorun en allir leikmenn liðsins áttu frábæran dag. Jón Axel Guðmundsson var með 22 stig, Hlynur Bæringsson var með 21 stig og Martin Hermannsson setti 19. Pavel Ermolinskij var að daðra við þrennuna frægu en hann var með átta stig, 11 fráköst og átta stoðsendingar.

Næsti leikur riðilsins er leikur Sviss og Íslands á miðvikudag og með sigri Íslands í þeim leik endar Ísland efst í riðlinum.

Tölfræði leiksins

Mynd/Jónas Oddsson: Íslensku strákarnir í leikslok.