29 maí 2019Í dag hélt keppni í körfuknattleik áfram og áttu okkar lið sitthvorn leikinn. Niðurstaðan varð einn sigur og eitt tap.

Strákarnir hófu leik gegn Möltu. Okkar menn byrjuðu vel og voru 22:14 yfir eftir fyrsta leikhluta og 34:21 í hálfleik. Seint í þriðja leikhluta var Ísland 49:30 yfir en Malta setti síðustu 8 stigin og minnkaði muninn. Þeir héldu áfram að sækja í framhaldinu og voru komnir með nokkura stiga forskot þegar rúmar þrjár mínútur lifðu af leiknum. Ísland sýndi mikin karakter með að koma sér inn í leikinn aftur og voru þrem stigum yfir þegar rúmar 6 sekúndur voru eftir. Malta jafnaði og lokaskot Íslands geigaði og því þurfi að framlengja. 

Í framlengingunni tóku okkar strákar af skarið og unnu hana að lokum 16:12 og þvi 80:76 lokatölur. Frábær karakter hjá okkar strákum að klára leikinn sem þeir voru með í hendi sér framan af. 

Stigahæstir í dag voru Elvar Már Friðriksson með 33 stig og tók 7 fráköst en hann nýtti 11 af 12 vítum sínum og setti stórar körfur í lok venjulegs leikhluta sem og í framlengingunni var hann ískaldur á vítalínunni sem vóg þungt. Kristinn Pálsson var með 17 stig, þar af 4 af 8 í þriggja og Gunnar Ólafsson bætti við 9 stigum og Dagur Kár Jónsson var með 7 stig.

Punktar:
· Allir leikmenn komu við sögu í dag. 
· Malta tapaði boltanum 24 sinnum í leiknum þökk sé góðri vörn Íslands.

Stelpurnar léku næsta leik á eftir og gegn heimastúlkum í Svartfjallalandi en liðið þeirra er á leið á lokamót EM, EuroBasket Women, sem fer fram í sumar. Okkar stelpur voru lítið að pæla í því og léku fantavel í sókn og vörn gegn sterku liði heimastúlkna. Leikurinn var jafn nánast allan tímann. 17:19 eftir fyrsta leikhluta, 34:38 í hálfleik og 51:55 eftir þrjá leikhluta. Þegar skammt var eftir var munurinn 3-7 stig og fékk íslenska liðið opin skot en boltinn datt ekki nóg fyrir okkur á meðan Svartfjallaland náði að skora á móti. Lokastaðan 73:81 í leik þar sem stelpurnar okkar sýndu hvað þær geta og sýndu frábæra liðsheild og fara fullar sjálfstraust eftir þennan leik inn í næstu leiki mótsins.

Stigahæst í liði Íslands í dag var Helena Sverrisdóttir var frábær í kvöld, var með 34 stig, fiskaði 12 villur og nýtti öll 13 vítaskotin sín í leiknum og mörg í lok leiksins þegar munurinn var sem minnstur. Næst kom Gunnhildur Gunnarsdóttir með 9 stig og Sara Rún Hinriksdóttir var með 8 stig.

Punktar:
· Hildur Björg Kjartansdóttir er að kljást við smá meiðsl og hún lék aðeins í 9 mín. í leiknum í dag sem hafði sitt að segja.
· Sigrún Björg Ólafsdóttir lék í tæpar þrjár mínútur en setti niður þrist í sinni fyrstu snertingu og þar með sín fyrstu landsliðsstig.

Næstu leikir eru svo á morgun hjá báðum liðum. Fyrst stelpurnar kl. 11:15 gegn Lúxemborg og svo strákarnir kl. 18:00 gegn Svartfjallalandi. Því miður er ekki lifandi tölfræði en hún er tekin á leikvellinum og setjum við inn hálfleikstölur og lokatölur á facebook-síðu KKÍ.

#korfubolti