28 maí 2019Í dag fóru fram fyrstu leikir mótsins hjá okkar landsliðum. Stelpurnar hófu leik gegn Möltu á þessum leikum. Stelpurnar okkar komu virkilega vel stemmdar til leiks og höfðu þjálfarar liðsins, þeir Benedikt og Halldór Karl, undirbúið liðið vel því okkar stelpur vissu heilmargt um leikstíl og leikmenn liðsins og sáu meistarar síðustu leika aldrei til sólar gegn Íslandi. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21:9 og í hálfleik var staðan 41:16 okkar stelpum í vil sem voru að leika mjög góða vörn og sóttu á mörgum leikmönnum. Skemmst er frá því að segja að öruggur sigur var niðurstaðan, 61:35.

Stigahæstar í dag voru Þóra Kristín Jónsdóttir, Haukum og Hallveig Jónsdóttir, Val, sem voru með 11 stig hvor. Helena Sverrisdóttir, Val, var svo með 10 stig og 9 fráköst.


Strákarnir léku svo næsta leik strax á eftir gegn Lúxemborg. Ísland byrjaði vel og var 25:13 yfir eftir fyrsta leikhluta og svo 39:34 í hálfleik. Næstu leikhluta skoraði Ísland bara 17 og 11 stig gegn 21 og 22 frá Lúxemborg og því 10 stiga tap niðurstaðan, 67:77. Elvar Már Friðriksson, Njarðvík, var stigahæstur í liði Íslands í dag með 16 stig og 6 stoðsendingar og Gunnar Ólafsson, Keflavík var með 13 stig.

Næstu leikir eru svo á morgun, kl. 13:30 (karlar gegn Möltu) og 15:45 (konur gegn Svartfjallalandi). 

#korfubolti