2 nóv. 2018Breytingar hafa verið gerðar á dómaramenntun KKÍ.  Náminu hefur verið skipt niður í þrjá hluta.

Námskeið 1 - Grunnnámskeið er ætlað 10. bekk og eldri. Þátttakendum er ætlað að öðlast grunnþekkingar á leikreglum og dómaratækni. Námskeið 1 veitir þátttakanda réttindi til að dæma á fjölliðamótum hjá börnum á grunnskólaaldri.
Námskeiðið fer þannig fram að dómarar koma í heimsókn til félaga og er fínt að nýta t.d. 10. flokks æfingatíma undir námskeiðið. Námskeiðið fer fyrst fram í fyrirlestrarsal og er síðan fært inn í íþróttasal. Lengd námskeiðsins er 3 klst.

Námskeið 2 - Framhaldsnámskeið og fyrir alla þá sem hafa lokið grunnnámskeiði og eru 16 ára eða eldri.
Námskeiðið fer fram á netinu og verður fyrirkomulagið auglýst betur síðar.
Námskeið 2 veitir þátttakanda réttindi til þess að dæma hjá öllum yngri flokkum, unglingaflokkum og í neðrideildum í meistaraflokkum að 1. deild undanskilinni.

Námskeið 3 - Loka námskeið og veitir þér réttindi til þess að dæma á öllum stigum á vegum KKÍ. Þátttakandi þarf að hafa lokið námskeiðum 1 og 2, hafa dæmt x leiki, setið haustfund dómara og farið í þrekpróf að því loknu kemur þátttakandi til álita til að dæma í tveimur efstu deildum karla og kvenna.

Fjölnir var fyrsta félagið til þess að halda námskeið 1. Námskeiðið heppnaðist mjög vel og voru 43 einstaklingar sem sóttu námskeiðið.  Þátttakendur voru mjög ánægðir með þetta nýja fyrirkomulag. Jón Bender og Gunnar Þór Andrésson voru leiðbeinendur á námskeiðinu.