17 sep. 2018

Íslenska karlalandsliðið lék í gær gegn Portúgal á útivelli og fór leikurinn fram í bænum Sines. Þetta var fyrsti leikur liðsins í forkeppni EuroBasket 2021. Leikurinn fór jafnt af stað og Ísland leiddi með fimm stigum eftir 1. leikhluta en heimamenn með einu stigi í hálfleik. Ísland átti ekki góðan kafla í 3. leikhluta en þar vann Portúgal leikhlutann með 10 stigum og var á tímabili með ellefu stiga forskot í fjórða leikhluta.

Íslenska liðið kom hinsvegar sterkt til baka og náði að jafna leikinn, liðin skiptust á að leiða á lokamínútunum en þegar 20 sekúndur voru eftir skoraði Tryggvi Hlinason glæsilega körfu og kom Íslandi einu stigi yfir. Portúgal skoraði hinsvegar körfu eftir sóknarfrákast og tvö næstu skot Íslands geiguðu og Portúgal kláraði leikinn á vítalínunni.

Því miður voru það tapaðir boltar (18) og mistök í vörn og sókn sem gáfu andstæðingum okkar of margar auðveldar körfur og það reið baggamuninn í leiknum að þessu sinni.

Martin Hermannsson var stigahæstur í gær með 20 stig, 8 stoðsendingar og 4 fráköst, Tryggvi Hlinason var með 15 stig og 5 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson var með 14 stig og 5 stoðsendingar og Kári Jónsson og Elvar Már Friðriksson voru með 11 stig hvor.

Næsti leikur liðsins verður heimaleikur í Laugardalshöllinni gegn Belgíu þann 29. nóvember og verður hann gríðarlega mikilvægur fyrir framhaldið í riðlinum.

#korfubolti