30 apr. 2018Haukar urðu í kvöld íslandsmeistarar í Domino's deildar kvenna 2017-2018 eftir sigur gegn Val í frábærum oddaleik um titilinn í DB Schenkerhöllinni í Hafnarfirði. 

Staðan fyrir leikinn í gær í einvíginu var 2-2 og húsið nánast fullt af rúmlega 1.500 áhorfendum sem mætti til leiks í Hafnarfirði og góð stemning meðal stuðningsmanna beggja liða. Leiknum lauk með 74:70 sigri Hauka og þar með var titilinn í höfn í 4. sinn í sögu félagsis en Haukar urðu síðast íslandsmeistarar kvenna árið 2009.

Birgir Örn Birgisson, forstjóri Domino's Pizza, afhenti Jónasi Jónmundssyni, formanni KKD Hauka, verðlaunafé fyrir sigurinn, eina milljón, áður en bikarinn fór á loft.

Helena Sverrisdóttir var svo í leikslok útnefndur besti leikmaður úrslitakeppninnar en hún var þrennu að meðaltali í úrslitakeppninni allri, með 20.8 stig, 12.5 fráköst, 10.0 stoðsendingar og samtals 32.5 framlagsstig að meðaltali í leik.

Þjálfarar Hauka, Ingvar Guðjónsson og Bjarni Magnússon urðu íslandsmeistarar í fyrsta sinn, en báður höfðu þeir hlotið silfur sem þjálfarar Hauka, Ingvar fyrir tveim árum og Bjarni tvisvar, árin 2012 og 2014.
 
Flestir Íslandsmeistarartitlar eftir úrslitakeppni:
12 Keflavík (1993, 1994, 1996, 1998, 2000, 2003, 2004, 2005, 2008, 2011, 2013, 2017)
4 KR (1999, 2001, 2002, 2010)
4 Haukar (2006, 2007, 2009, 2018)
3 Snæfell (2014, 2015, 2016)
1 Breiðablik (1995)
1 Grindavík (1997)
1 Njarðvík (2012)

KKÍ óskar Haukum til hamingju með titilinn!

#korfubolti