18 apr. 2018Bob McKillop kemur til Íslands í sumar og verður aðalfyrirlesari á þjálfaranámskeiði KKÍ þjálfari 3.a dagana 1.-3. júní.

Bob McKillop hefur verið aðalþjálfari Davidson háskólans í NCAA undanfarin 29 ár eða frá árinu 1989. Bob var meðal annars þjálfari Stephen Currys á sínum tíma, sem er ein stærsta stjarnan NBA-deildarinnar í dag, og er auðvitað núverandi þjálfari Jón Axels Guðmundssonar, sem leikur með liðinu við góðan orðstír þessa dagana. Liðið komst í 64-liða úrslit háskólaboltans í ár sem dæmi.

Mackillop hefur náð eftirtektarverðum árangri með Davidson þar sem hann er ekki alltaf með þá jafn mikla hæð og eins mikla íþróttamenn og stærri skólarnir tefla oft fram, en nær fram frábærri liðsheild og samvinnu, og nýtir sér aðra styrkleika leikmanna sinna, ekki ólíkt því sem við þekkum með okkar landslið á undanförnum árum.
 
Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um það hvað það er mikill hvalreki fyrir íslenska körfuboltasamfélagið að fá hann til landsins og miðla þekkingu sinni til íslenskra þjálfara.
 
Þetta er námskeið sem áhugasamir ættu alls ekki að láta framhjá sér fara. Allir þjálfarar geta skráð sig á þetta námskeið sem er hluti 3.a í þjálfaramenntun KKÍ.

Skráning og þátttökugjald:
Skráning er hafin á kki.is hérna en allir sem skrá sig fyrir 18. maí fá þátttökugjaldið á 25.000 kr. en eftir það verður það 30.000 kr.

#korfubolti