25 feb. 2018

Íslenska landslið karla vann í kvöld Tékkland í öðrum leik sínum í undankeppni HM karla 2019 í Laugardalshöllinni. Þetta er eitt sterkasta landslið sem Ísland hefur unnið en Tékkar eru efstir í styrkleikaflokki riðilsins og hafa verið að ná mjög góðum árangri undanfarin ár.

Frábær liðssigur hjá okkar strákum í kvöld þar sem allir lögðu hönd á plóg og má segja að frábær vörn hafi verið lykillinn að sigrinum í kvöld. Allir leikmenn íslenska liðsins sem komu inn á völlinn lögðu sitt af mörkum í vörn og sókn, en liðið var einnig stutt frábærlega áfram af íslensku stuðningsmönnunum öllum í Höllinni, en það er löngu sannað að góður stuðningur skiptir sköpum á okkar heimavelli. Því sannkallaður LIÐS-sigur allra sem að komu leiknum.

Martin Hermannsson var stigahæstur í kvöld með 26 stig og 4 fráköst og 3 stoðsendingar, Tryggvi Snær Hlinason var með 15 stig og 8 fráköst og varði 3 skot og Jón Arnór Stefánsson var með 11 stig og 4 stoðsendingar. 

Heildartölfræði og myndir úr leiknum má sjá hérna á vef keppninnar.

#TakkLogi
Logi Gunnarsson lék í kvöld sinn 147. landsleik og er fjórði landsleikjahæsti leikmaður íslenskrar körfuknattleikssögu. Logi hefur nú lagt landsliðsskónna á hilluna og KKÍ vill þakka Loga kærlega fyrir allt hans framlag í gegnum árin fyrir íslenska landsliðið og íslenskan körfubolta. Hann hefur lagt gríðarlega mikið að mörkum og tekið þátt í öllum verkefnum liðsins óslitið frá árinu 2000 þegar hann lék sinn fyrsta landsleik.

Framhaldið
Ísland fer því útúr febrúar landsliðsglugganum með tvo sigra á heimavelli sem er gríðarlega sterkt fyrir framhaldið í riðlinum.

Staða Íslands er því 2-2 í sigrum og töpum talið, en ljóst er að mikilvægasti leikur liðsins fyrir áframhaldið verður gegn Búlgaríu í lok júní í sumar en þá mun íslenska liðið leika á útivelli, fyrst gegn Búlgaríu og svo gegn Finnum í Helsinki.

Þrjú efstu liðin fara áfram í seinni umferð undankeppni HM og munu leika í 6-liða riðli en neðsta liðið situr eftir.
 
#korfubolti