24 feb. 2018

 

Ísland lék gegn Finnlandi í gær í þriðja leik sínum í undankeppni HM karla sem fram fer árið 2019. Liðin mættust síðast í Helsinki á EuroBasket 2017 í september og þar höfðu heimamenn sigur í lokaleik mótsins. 

 

Nú var komið að leik á heimavelli Íslands í Laugardalshöllinni. Leikurinn byrjaði fjörlega og var skemmtilegur. Í hálfleik leiddi Ísland með einu stigi 39:38. Finnland átti góðan þriðja leikhluta og komst  10 stigum yfir á tímabili. Okkar strákar héldu áfram sínum leik og hægt og rólega var leikurinn orðinn jafn og lokaleikhlutinn hálfnaður. 

 

Eftir að hafa unnið upp muninn héldu okkar strákar áfram og komumst sjö stigum yfir og lögðu grunninn að sigri sínum í gær með frábæri vörn og skilvirkum sóknarleik. Lokatölur 81:76 fyrir Íslandi og liðið því einn sigur og tvö töp þegar þrír leikir eru eftir í undankeppninni.

Martin Hermannsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 26 stig og 6 stoðsendingar og Hlynur Bæringsson var með 14 stig og 12 fráköst.

 

Ísland leikur á morgun, sunnudaginn 25. febrúar kl. 16:00, í Laugardalshöllinni gegn Tékklandi.

KKÍ hvetur alla stuðningsmenn til að fjölmenna á ný líkt og í gær og styðja við íslenska liðið til sigurs.
Miðasala er á tix.is og við inngang á leikdegi.

Í sumar verður svo leikið á útivelli, fyrst gegn Búlgaríu 29. júní, í mjög mikilvægum leik, þar sem þeir unnu fyrri leik liðana með þrem stigum, og svo aftur gegn Finnum í Finnlandi í Helsinki 2. júlí.

 

#korfubolti