23 jan. 2018

Í gær endurnýjuðu Icelandair og KKÍ samstarfssamning sín á milli og var samningurinn undirritaður í þjálfunarsetri Icelandair í Hafnarfirði. Icelandair hefur verið aðal samstarfsaðili KKÍ um árabil en góður stuðningur Icelandair er mikilvægur fyrir sambandið og því afar ánægjulegt að áframhaldandi samstarf sé nú í höfn, en samingurinn er út árið 2020.

Icelandair endurnýjaði einnig samstarfssamninga við ÍSÍ og fjögur önnur sérsambönd, það er GSÍ, HSÍ, ÍF og KSÍ. Samstarf Icelandair, KKÍ og viðkomandi sérsambanda felur í sér víðtækt samstarf. Icelandair mun styðja dyggilega við starf þeirra og landsliðsstarf en rekstur landsliða felur í sér mikil og kostnaðarsöm ferðalög um allan heim.

Í samningi Icelandair og ÍSÍ er að finna nýtt ákvæði, fyrir sérsambönd sem ekki eru með sérstakan styrktarsamning við Icelandair, sem felur í sér afsláttarkjör á fargjöldum Icelandair á samningstímanum. Icelandair skal tryggja sérsamböndum ÍSÍ hagstæðustu fargjöld hverju sinni og lægsta mögulega hópfargjald þegar um landsliðshóp er að ræða.