20 ágú. 2017

Íslenska karlalandsliðið tapaði aftur fyrir Ungverjum í æfingaleik í dag, 82-67, í Ungverjalandi.

Íslenska liðið byrjaði af miklum krafti og leikmenn ákafir í öllum sínum aðgerðum, komust í 10-0 og eftir fyrsta leikhluta var staðan 21-16. Baráttan hélt áfram og í hálfleik var staðan 39-37. Í seinni hálfleik var baráttan og krafturinn horfin og Ungverjarnir stigu stór skref framúr, eftir þriðja leikhluta voru þeir komnir yfir 48-57 og áfram héldu þeir gegn baráttulitlum Íslendingum. Lokatölur 67-82.

Martin Hermannsson var stigahæstur með 17 stig, Haukur Pálsson skoraði 12, Hörður Axel Vilhjálmsson 10, Logi Gunnarsson 9, Hlynur Bæringsson 5 og tók 7 fráköst, Ægir Steinarsson 4, Tryggvi Hlinason 4, Elvar Friðriksson 3, Kristófer Acox 2, Brynjar Björnsson 1 og Pavel Ermolinskij komst ekki á stigatöflunar en tók 4 fráköst.

Liðið heldur til Litháen í fyrramálið þar sem verður æft og svo leikið við heimamenn á miðvikudag en það verður síðasti æfingaleikur liðsins fyrir EuroBasket í Finnlandi.