13 ágú. 2017Ísland lék í dag gegn heimamönnum Rússum á alþjóðlegu móti í Kazan í Rússlandi. Eftir brösuga byrjun þar sem íslenska liðið hitti illa úr annars góðum færum, voru það Rússar sem byrjuðu vel og voru á endanum 48:31 yfir í hálfleik. Okkar strákar léku mun betur í seinni hálfleik og var munurinn 6 til 4 stig í nokkur skipti. Sterkt lið Rússa svaraði öllum áhlaupum okkar stráka jafnharðan með skilvirkum leik og góðri hittni í dag og höfðu að lokum 13 stiga sigur, 82:69.

Íslenska liðið sýndi góðan leik á löngum köflum í leiknum í dag og mótið í heild góður undirbúningur fyrir liðið.

Martin Hermannsson var stigahæstur í dag með 22 stig og með góða nýtingu í skotum, 4 stoðsendingar og 5 fráköst. Haukur Helgi Pálsson var með 12 stig og 6 stoðsendingar og Hörður Axel Vilhjálmsson var með 11 stig.

Í mótslok varð ljóst að liðið varð í 3. sæti mótsins á undan Ungverjum, Þýskaland varð í öðru og Rússar unnu alla sína leiki.

Þá var Martin Hermannsson valin í fimm manna úrvalslið mótsins en hann átti gott mót og var með næst mesta framlagið á mótinu, 17.3 að meðaltali í leik.

Framundan er ferðalag heim á morgun til Íslands og síðan taka við æfingar fram að næstu æfingaferð á föstudaginn kemur þegar liðið heldur til Ungverjalands og Litháen í lokaleiki undirbúningsins fyrir EuroBasket 2017.

#korfubolti