15 júl. 2017

Á fimmtudaginn spiluðu stelpurnar í u20 gegn Þýskalandi og var þetta seinasti leikurinn í riðlakeppninni. Ljóst var fyrir leikinn að stelpurnar myndu enda í sjötta og seinasta sæti riðilsins á sama tíma og Þýskaland þurfti á sigri að halda til að gulltryggja sig inn í undanúrslit mótsins.

Leikurinn var skemmtilegur framan af þar sem íslensku stelpunum gekk vel að hægja á og stoppa Þjóðverja og héldu þeim í 29 stigum í fyrri hálfleik en því miður gekk okkur illa að skora og skoraði liðið aðeins 16 stig í fyrri hálfleik. Í 3ja leikhluta mættu stelpurnar ákveðnar til leiks og tókst að vinna leikhlutann og minnka muninn í 10 stig þegar flautað var til loka 3.leikhluta. Í 4. leikhluta náðu þær að minnka muninn í 6 stig og fengu tækifæri til þess að minnka muninn niður í 4 stig en því miður gekk það ekki og Þjóðverjar gengu á lagið og gerðu út um leikinn sem endaði 36-53 fyrir Þýskalandi.

Eins og í fyrri leikjum þá eru það tapaðir boltar og léleg skotnýting sem verður liðinu að falli en liðið tapaði alls 33 boltum í leiknum og hefur tapað 27,4 boltum að meðaltali á mótinu. Liðið hefur oft á tíðum verið að spila mjög góða vörn en þær þurfa að passa boltann betur ef betur á að ganga í þeim leikjum sem eru eftir.

Liðið endaði í 6. sæti í sínum riðli og mun spila um 9.-12. sæti á mótinu. Í dag er spilað við Rúmeníu klukkan 17:30 og sigurvegarinn í þeim leik mun spila um 9.-10. sæti en sá sem tapar mun spila um 11.-12. sæti.

Hér má nálgast tölfræði úr leik Íslands og Þýskalands.

Hér má nálgast beina útsendingu frá leik Íslands og Rúmeníu kl.17:30 í dag.