8 júl. 2017

Það var ekki auðvelt verkefni er beið íslensku stelpnanna í fyrsta leik á EM en í dag mættu þær liði Grikklands sem féll úr A deild fyrir ári síðan. Leikurinn var jafn til að byrja með þar sem bæði lið áttu erfitt með að skora en Grikkirnir nýttu sér hæðarmun liðana og fóru að sækja inn í teig þar sem Maria Fasoula, miðherji Grikkja sem er 192cm á hæð, átti stórleik og skoraði 8 af fyrstu 10 stigum Grikklands.

Íslensku stelpurnar börðust vel í dag og eiga Linda Róbertsdóttir, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir og Rósa Björk Pétursdóttir virkilegt hrós skilið fyrir að berjast gegn mjög sterkum miðherja Grikklands. Það sést best hversu vel íslensku stelpurnar allar börðust á því að íslenska liðið vann frákastabaráttuna í leiknum. En tapaðir boltar varð liðinu að falli og endaði leikurinn með 30 stiga sigri Grikklands, 72-42.

Best í íslenska liðinu í dag var Thelma Dís Ágústsdóttir með 9 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar. Eins og kom fram hér að ofan þá voru Linda, Elín Sóley og Rósa Björk einnigað standa sig vel, sérstaklega varnarmegin en Linda og Rósa Björk skoruðu einnig 8 stig hvor. 

Næsti leikur liðsins er á morgun gegn Slóvakíu sem einnig féll úr A-deild á síðasta ári. Leikurinn er kl.17:30 að íslenskum tíma og er hægt að fylgjast með bæði lifandi tölfræði og beinni útsendingu hér.