4 apr. 2017

Einn þekktasti, virtasti og sigursælasti þjálfarinn í evrópskum körfubolta, Svetislav Pešić verður aðalfyrirlesari á þjálfaranámskeiði KKÍ 2.c núna í vor.

Námskeiðið verður haldið í Ásgarði, Garðabæ, dagana 26.-28. maí.

Pešić er eini þjálfarinn sem hefur orðið Heims- og Evrópumeistari í öllum keppnum FIBA. Hann er einnig eini þjálfarinn sem hefur unnið Evrópukeppni landsliða með tveimur þjóðum. Þá vann hann þrennuna eftirsóttu á Spáni 2003 (deild, bikar og Euroleague) og hann er einnig margfaldur meistari í hinum ýmsu keppnum og hefur orðið Þýskalandsmeistari svo eitthvað sé nefnt.

Svetislav Pešić er ekki aðeins einn sigursælasti þjálfari í evrópskri körfuboltasögu heldur er hann einnig einn besti kennarinn í leiknum fagra. Pešić er aðalkennari og leiðbeinandi FECC þjálfaranámsins hjá FIBA. Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um það hvað það er mikill hvalreki fyrir íslenskan körfubolta að fá hann til landsins. 

Þetta er námskeið sem áhugasamir ættu alls ekki að láta framhjá sér fara.

Skráning er hafin hérna á kki.is en þátttökugjaldið er 20.000 kr. fyrir þátttakendur sem skrá sig fyrir 1. maí.
Eftir 1. maí verður þátttökugjaldið 25.000 kr. 

#korfubolti