16 feb. 2017

Á úrslitaleikjum Maltbikars karla og kvenna voru þær Þórdís Kristjánsdóttir og Kolbrún Jónsdóttir(Dolla) heiðursgestir KKÍ. Þær Þórdís og Kolbrún skipa merkan sess í sögu KKÍ en þær eru fyrstu og einu konurnar sem hafa gegnt stöðu formanns, Þórdís, og framkvæmdastjóra, Kolbrún.

Þórdís var í stjórn KKÍ á árunum 1978 til 1985 og gegndi stöðu formanns tímabilið 1983-84 en einnig var hún gjaldkeri um tíma. Kolbrún var fyrsti framkvæmdastjóri KKÍ og gegndi því um tíma á fyrri hluta níunda áratugar síðustu aldar. Einnig var hún í stjórn KKÍ á árunum 1980-1983 og hefur verið viðloðandi körfuboltann um árabil.

Sem heiðursgestir KKÍ afhentu þær sigurliðunum á laugardag bikarinn. Var það afar ánægjulegt að þær gátu komið en þær hafa ásamt fleirum rutt brautina fyrir konur í stjórnunarstörfum innan körfuboltans sem og íþróttanna.