26 feb. 2001Margir hafa beðið með eftirvæntingu eftir útgáfu ritsins um sögu KKÍ. Formlegur útgáfudagur var í afmælishófinu þann 24. febrúar 2001, og voru fyrstu eintök afhent Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands, Valdu Suurkask forseta tækninefndar FIBA og Ellerti B. Schram forseta ÍSÍ. Ritið ber nafnið “Leikni framar líkamsburðum” – saga körfuknattleiks á Íslandi í hálfa öld. Nafn bókarinnar er tilvísun til hugmyndafræði Dr. James Naismith sem fann upp körfuknattleikinn í Springfield í Massachusettes í Bandaríkjunum í lok 19. aldar. Höfundur bókarinnar er Skapti Hallgrímsson blaðamaður. Það var Gunnar Gunnarsson, formaður ritnefndar sem kynnti útgáfu bókarinnar og afhenti fyrstu eintökin. Ritnefnd var sérstaklega heiðruð, enda hafa störf hennar falið í sér ótrúlega umfangsmikla heimildaöflun, yfirlestur og skipulagsvinnu. Ritnefndina skipa, auk Gunnars, gamli landsliðsmiðherjinn Guðmundur Þorsteinsson, stormskyttan úr Val og Stykkishólmi Ríkharður Hrafnkelsson, sýslumaðurinn, aganefndarformaðurinn og leikmaður á 6. áratugnum Jón Eysteinsson, og dómarinn og tölfræðihesturinn Rúnar Gíslason. Um feril allra þessara heiðursmanna er hægt að lesa meira og minna í bókinni. Það er mál manna að vel hafi tekist til með bókinni. Hún er aðgengileg og vel skrifuð, og afar ítarlega unnin að því er varðar heimildir. Bókina prýðir mikið af skemmtilegum myndum, og ýmis fróðleikur kemur fram í bókinni sem margir höfðu ekki vitað um áður. Nafnalisti bókarinnar telur í kringum 1500 nöfn, og ljóst að margir hafa með beinum eða óbeinum hætti komið að uppbyggingu og útbreiðslu körfuknattleiks á Íslandi þá rúmlega hálfu öld sem liðin er frá því að iðkun íþróttarinnar hófst á Íslandi. Bókin er til sölu á skrifstofu KKÍ. mt: Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands tekur við fyrsta eintakinu af bókinni um sögu körfuknattleiks á Íslandi í hálfa öld úr hendi höfundarins, Skapta Hallgrímssonar blaðamanns. Á milli þeirra er Gunnar Gunnarsson formaður ritnefndar KKÍ.