1 okt. 2000Önnur umferð Epson deildarinnar hófst á Ásvöllum í dag þar sem Haukar gjörsigruðu Hamar 99-60. Stigahæstur Hauka var Rick Mickens með 19 stig, en Pétur Ingvarsson skoraði mest Hamarsmanna eða 18 stig. Staðan í hálfleik var 47-35 Haukum í vil. Grindvíkingar tóku á móti Tindastólsmönnum og unnu leikinn 94-81 eftir að hafa haft tíu stiga forystu í hálfleik 52-42. Shawn Myers var stigahæstur gestanna með 20 stig, en Páll Axel Vilbergsson skoraði 23 stig og tók 10 fráköst fyrir heimamenn. Kim Lewis var með þrennu í leiknum, en hann skoraði 18 stig, tók 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Íslandsmeistarar KR steinlágu á heimavelli fyrir Keflvíkingum 61-83. Titilvörnin byrjar ekki vel hjá KR, en þeir hófu tímabilið á tapi gegn nýliðum ÍR. Stigahæstir KR-inga voru Arnar Kárason og Jón Arnór Stefánsson með 12 stig hvor. Ekki er vitað um stigaskor Keflvíkinga enn sem komið er. Njarðvíkingar unnu ÍR á heimavelli með 102 stigum gegn 95 eftir að hafa verið undir í hálfleik 46-49. Stigahæstur Njarðvíkinga var Brenton Birmingham með 35 stig, en Logi Gunnarsson kom næstur með 21 stig. Atkvæðamestir hjá gestunum voru Cedric Holmes (22 stig, 13 fráköst) og Eiríkur Önundarson (20 stig). Skallagrímsmenn báru sigurorð af Val, 66-64, í fyrsta úrvalsdeildarleiknum sem fram fer í Íþróttamiðstöðinni í Grafarvogi. KFÍ tapaði heima fyrir Þórsurum 73-80.