24 sep. 1999Ljóst er hverjir mótherjar ÍRB verða í riðlakeppni Korac cup, en leikið verður heima og heiman í október og nóvember. Mótherjarnir eru Lugano frá Sviss, Huima frá Finnlandi og Nancy frá Frakklandi. Fyrsti leikur Reyknesinga verður gegn Lugano í Sviss 6. október. Síðan verður nóg að gera hjá þeim suðurnesjamönnum því þeir mæta Huima hér heima 13. október. Nancy úti 20. október, Lugano heima 3. nóvember, Huima úti 10. nóvember og Nancy heima 17. nóvember. Mikið álag verður á leikmönnum Keflavíkur og Njarðvíkur í október og nóvember og fram í desember. Breytingar hafa verið gerðar á niðurröðun leikja liðanna í mótunum hér heima vegna þátttökunnar í Evrópukeppninni. Fjórum leikjum hefur verið frestað fram í desember þannig að leikið verður þétt fram til jóla. Ekki má gleyma því að landsliðið leikur þrjá leiki í undanúrslitariðla Evrópukeppninnar í lok nóvember og byrjun desember, en nær allir leikmenn ÍRB eru landsliðsmenn og því verður álagið á þessa leikmenn gríðarlegt alveg fram að jólum.